Af Facebook og öðrum þráðum! Áskorandinn Ásdís Ýr Arnardóttir
Hvað er títt? Jú, bara þokkalegt! sagði nemandi minn þegar ég spurði hann frétta snemma dags fyrir nokkru. Nemendur mínir eru oft skemmtilegir í tilsvörum, maður heyrir oft hvaða nesti þau hafa að heiman, eins og flestir þekkja þá eru börn gjarnan speglar foreldra sinna eða aðal umönnunaraðila.
Það er eitthvað notalegt við það þegar börnin okkar búa yfir fjölbreyttum og skemmtilegum orðaforða. Þar erum við fullorðna fólkið helstu fyrirmyndirnar, ef við lesum fyrir börnin okkar, tölum við þau og lesum með þeim eru allar líkur á því að þeirra orðaforði verði fjölbreyttur. Það er jú þannig að okkar ástkæra ylhýra tunga á undir högg að sækja, orð eins og að kópíræta, triggerast, dángreida, öpplóda, seifa, fæla, peista og svo mætti lengi telja eru orðin nokkurs konar norm og sitt sýnist hverjum. Sjálfsagt er hin margumtalaða upplýsingatækni áhrifavaldur þar, en fátt er með öllu illt.
Samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Instagram flytja okkur fréttir af fólki, hvort sem okkur líkar betur eða verr, allstaðar að úr hinum stóra heimi. Algóritminn almáttugi passar svo upp á að við fáum fréttir og sjáum auglýsingar, sem hugsanlega tengjast okkar áhugasviði eða sporum okkar á netinu. Fréttir frá Úkraínu hafa verið framarlega á mínum samfélagsmiðlum, sem og margra annarra geri ég ráð fyrir; Stríðsglæpir, fólksflótti og hörmungar á hörmungar ofan sem engan endi virðast ætla að taka. En í miðjum hörmungum birtist ljós í fallega samfélaginu okkar hér í A-Hún, ung kona frá Úkraínu, búsett á Blönduósi, óskaði eftir stuðningi íbúa Blönduósbæjar til að útbúa heimili fyrir samlanda sína á flótta. Fyrirtæki og íbúar brugðust hratt og örugglega við, samtakamáttur lítilla samfélaga verður sjaldan sýnilegri (og fallegri) en þegar einhvern vantar aðstoð. Ég þekki það sjálf, bæði sem barn á Blönduósi og sem fullorðin kona.
Þar liggur okkar styrkur, í umhyggju og samheldni. Í vor göngum við íbúar Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar til kosninga í nýju sameinuðu sveitarfélagi. Sveitarfélagið nýja er ekki mannmargt en það nær yfir stórt landsvæði. Flest viljum við þó það sama, bætt lífsgæði til handa öllum óháð stétt eða stöðu.
Sjálfstæðismenn og óháðir bjóða fram lista af fjölbreyttu og frambærilegu fólki sem brennur fyrir því að bæta lífsgæði íbúa með því að styrkja grunnþjónustu nýs sveitarfélags og tryggja jafna þjónustu fyrir alla.
Ég býð mig fram sem hluti af þeirri heild, í 5. sæti á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í sameinuðu sveitarfélagi Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar.
Ég skora á Löru Margréti Jónsdóttir frá Hofi í Vatnsdal til að taka við pennanum.
Áður birst í 13. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.