Ætla að fjölga íbúðum á Skagaströnd

Horft yfir skólamannvirkin á Skagaströnd, Spákonufell í bakgrunninum. Myndir af vef HMS.
Horft yfir skólamannvirkin á Skagaströnd, Spákonufell í bakgrunninum. Myndir af vef HMS.

Sveitarfélagið Skagaströnd og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf þess efnis að leita leiða til að fjölga íbúðum og efla stafræna stjórnsýslu á Skagaströnd. Lítið hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á staðnum en einungis hefur fjölgað um eina íbúð síðastliðinn áratug þegar byggt var einbýlishús og er íbúðaskortur farinn að hafa veruleg áhrif, eftir því sem fram kemur á heimasíðu HMS.

Þar segir ennfremur að í núgildandi húsnæðisáætlun sveitarfélagsins komi meðal annars fram að skortur á íbúðarhúsnæði hamli eðlilegri framþróun sveitarfélagsins. Ungt fólk sem vilji snúa aftur heim að loknu námi eða nýir íbúar sem vilja sækja atvinnu hafa ekki um mikið að velja. Skortur á húsnæði hamli fjölgun íbúa í sveitarfélaginu þar sem lítið og stundum ekkert íbúðarhúsnæði standi til boða.

Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri
Sveitarfélagsins Skagastrandar

„Það er veigamikill þáttur í uppbyggingu á atvinnu í sveitarfélaginu og auknum umsvifum í ferðaþjónustu að til staðar sé hentugt húsnæði fyrir aðila sem vilja setjast að á Skagaströnd. Sveitarfélagið fagnar þessu framfaraskrefi sem felst í samstarfi við HMS og vonast til þess að það verði gjöfult til framtíðar þegar kemur að nýbyggingum á fasteignum á Skagaströnd,“ segir Alexandra Jóhannesdóttir sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagastrandar.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að markmið samstarfsins sé að fjölga íbúðum í sveitarfélaginu þá meðal annars með því að nýta þau úrræði sem HMS hefur úr að ráða og auglýsa eftir byggingaraðilum sem vilja taka þátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Ásamt þessu komi sveitarfélagið og HMS til með að vinna að eflingu stafrænnar stjórnsýslu í sveitarfélaginu meðal annars með útgáfu á stafrænni húsnæðisáætlun, markvissri notkun mannvirkjaskrár HMS auk þess að undirbúningur hefjist við skráningu leigusamninga á svæðinu í húsnæðisgrunn HMS.

Viljayfirlýsingin er hluti af verkefninu Tryggð byggð sem er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni.

Nánar á Hms.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir