Aðventa komandi kjörtímabils
Á fyrsta sunnudegi í aðventu leit ný ríkistjórn dagsins ljós. Niðurstöður kosninganna voru skýrar en rúm 54% atkvæða skiluðu sér til fyrrum stjórnarflokkana. Ríkisstjórnin fékk endurnýjað umboð frá kjósendum til þess að vinna áfram saman.
Undanfarin misseri hafa boðið upp á fjölbreyttan veruleika og verkefni sem þarf að taka á með festu. Ríkisstjórn Íslands þarf að vera tilbúin að taka ólík sjónarmið inn í komandi verkefni og leiða með samvinnu þjóðarskútunni á öruggan kjöl. Það er verk okkar stjórnarflokkanna og ekki síður minnihlutaflokkana að sýna að við stöndum undir þeirri ábyrgð sem okkur var afhent af þjóðinni.
Samvinnusáttmáli
Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar slær nýjan tón, í honum felast mörg tækifæri fyrir landið allt. Veruleikinn sem blasir við nú í upphafi þessa kjörtímabils er allt annar en við stóðum frammi fyrir árið 2017. Við ritun stjórnarsáttmálans var tekin góður tími til að fara yfir liðið tímabil og skilar það sér í metnaðarfullum sáttmála þar sem finna má leiðarstef um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og síðast en ekki síst jafnvægi byggða og kynslóða. Í sáttmálanum má finna margar megináherslur Framsóknarmanna. Grænar fjárfestingar, jöfnun tækifæra um allt land og áhersla verður lögð á jafnvægi efnahagslegra samfélagslegra og umhverfislegra þátta. En umfram allt má finna að í sáttmálanum ríkir bjartsýni til komandi ára.
Uppbygging byggða
Tryggja má jafnvægi byggða með öflugum samgöngum, þjónustu og atvinnu ásamt því að byggja upp innviði um allt land. Það var gert á síðasta kjörtímabili, en þá var lyft grettistaki í samgöngumálum í NV- kjördæmi. Í augsýn er nútímavegur allan hringveg nr. 60 ásamt því að unnið er að endurbótum á mörgum köflum á Vestfjörðum og einbreiðum brúm fækkað. Hafin er breikkun Vesturlandsvegar, lagt hefur verið aukið fé í tengivegi og samið hefur verið um byggingu stærri samgöngumannvirkja víða um land í gegnum fjárfestingarverkefni.
Áfram skal halda, við Framsóknarmenn göngum ekki frá borði í miðju verki. Við verðum áfram með öflugan ráðherra málaflokksins þar sem Sigurður Ingi situr í nýju innviðaráðuneyti sem tekur fleiri mikilvæga þætti inn til sín. Skapa á meiri festu um gerð jarðganga og að því tilefni er áætlað að móta jarðgangaáætlun þar sem horft er til framtíðar en ekki geðþóttaákvarðana og valdamisræmi milli landssvæða. Undirbúningi Sundabrautar verður framhaldið með það að markmiði að hún opni fyrir umferð innan áratugs. Biðin er senn á enda.
Í nýja sáttmálanum má finna sterkan vilja til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu. Meðal annars er horft til að störf hjá ríkinu verði í auknum mæli án staðsetningar og sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Í því samhengi verður stutt við starfsaðstöðu og klasasamstarfs hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni. Stefna Framsóknar hefur lengi verið að beita þurfi hagrænna hvata í byggðaþróun m.a. í gengum Menntasjóð námsmanna.
Fjárfesta í fólki
Áherslan næstu ár er á fólkinu í landi og nýta auð íslensks samfélags hvar á landinu sem fólk býr. Hvert samfélag og hver einstaklingur skiptir máli. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða jöfnuðar. Vinna að kerfisbreytingum í þágu barna í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna heldur áfram. Nýta skal sömu hugmyndafræði til að samþætta þjónustu annarra hópa eins og eldra fólks, það mun skila okkur betri lýðheilsu og meiri virkni út lífið. Þjóðin er að eldast og því þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum til að virkni eldra fólks í samfélaginu sé virtur. Það þarf að auðvelda fólki að búa lengur heima. Samþætting þjónustu er nauðsynleg til að ná fram virkni og aukinni þátttöku eldra fólks í lifandi samfélagi.
Næstu vikur verða aðventa nýs þings. Það var gott að fá öflugan stuðning við áframhaldandi uppbyggingavinnu og mikilvæg verkefni sem bíða. Nú höldum við áfram næstu fjögur ár við að byggja betra samfélag.
Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður NV kjördæmis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.