Aðstaða og aðgengi: Leiðin til árangurs :: Greta Clough skrifar
Matthew Syed, margfaldur breskur meistari í borðtennis og virtur íþróttafréttamaður þar í landi, veltir því fyrir sér í bók sinni Bounce: The Myth of Talent and the Power of Practice hví gatan sem hann ólst upp við í Brighton hafi alið af sér fleira afreksfólk í borðtennis en á Bretlandseyjum samanlagt.
Skýringin er í raun einföld: Á staðnum var aðstaða til borðtennisiðkunar til fyrirmyndar, aðstaðan var opin börnum og unglingum, og þarna bjó gamall afreksmaður í íþróttinni sem gaf sér tíma til að leiðbeina unga fólkinu.
Þarna var góð aðstaða, hún var aðgengileg, og það var aðgengi að þekkingu.
Syed bendir á hve okkur hættir til að ofmeta meðfædda hæfileika og vanmeta að sama skapi mikilvægi handleiðslu og ástundunar. Þetta er sama niðurstaða og Malcolm Gladwell kemst að í bókinni Outliers: The Story of Success, en þar sýnir hann m.a. fram á að Bill Gates og aðrir brautryðjendur í tölvugeiranum hefðu aldrei komið fram án almennilegrar aðstöðu, aðgengi að aðstöðunni og fagþekkingar á staðnum.
Það er allra hagur, í hvaða geira sem við störfum, að börnum og ungu fólki sé greidd braut að þessum lykilþáttum til árangurs, hvort sem við lítum til íþróttastarfs, iðnnáms eða skapandi greina.
Skapandi greinar, menning og listir þar á meðal, eru einn vænlegasti vaxtarbroddur Íslands, og þá sérstaklega landsbyggðarinnar. Skapandi greinar eru mannfrekar, þekkingardrifnar, og gjaldeyrisskapandi, þurfa ekki að vera staðsettar í borg, og byggja á grunni lista- og menningarstarfs. Mannfrek og verðmæt atvinnustarfsemi er einmitt það sem landsbyggðin þarf á að halda til að ná vopnum sínum á ný.
Í aðdraganda sveitarstjórnakosninga vil ég því hvetja væntanlegt sveitarstjórnarfólk á landsbyggðinni til þess að huga vel að eftirfarandi þáttum.
- Að byggja upp aðstöðu til skapandi starfs fyrir ungt fólk;
- Að tryggja bæði formlegt aðgengi (í formi skipulagðrar ástundunar) og frjálst aðgengi (tækifæri til að koma, leika sér og hanga), og;
- Að tryggja handleiðslu fagfólks með þekkingu og reynslu til að miðla áfram.
Víða eru félagsheimili og tómstundamiðstöðvar að drabbast niður. Aðgengið er takmarkað eða ekkert, því húsin eru ýmist lokuð eða kostnaðarsöm til leigu, og svona mætti lengi telja – því miður. Alvarlegastur er þó fullkominn skortur á aðgengi að menntuðu fagfólki sem hefur reynslu og áhuga á að leiðbeina unga fólkinu.
Aðstöðuleysi og takmarkað aðgengi að þekkingu kemur algerlega í veg fyrir að til verði afreksfólk í nærumhverfinu, en það er afreksfólkið sem við þurfum til að ná árangri í harðri samkeppni á heimsvísu.
Þessu þarf að breyta. Ef við fjárfestum ekki í dag munum við ekki uppskera á morgun.
Greta Clough
listrænn stjórnandi Handbendis Brúðuleikhúss
Handbendi er Eyrarrósarhafinn 2021-2023
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.