Að fá að vinna með gullborgurum við hannyrðir er eins og að vinna í lottói

Sigríður.
Sigríður.

Sigríður Hrönn Bjarkadóttir á Blönduósi segir lesendum frá handverki sínu í þættinum að þessu sinni. Sigríður er fædd og uppalin á Akureyri en flutti til Blönduóss 1980 ásamt eigimanni og tveimur sonum. Í dag eru synirnir orðnir fjórir og barnabörnin níu, búsett í Reykjavík, Noregi og Barcelona. Handavinna hefur alltaf verið stór þáttur í lífi Sigríðar sem segist hafa hlotið mjög góða og fjölbreytta kennslu í barnaskóla. Sigríður hefur séð um félags og tómastundarstarfið í á Blönduósi í 22 ár. „Ég tel mig hafa unnið í lottói að fá að vinna með gullborgurum á staðnum við þaðsem ég elska að gera, hannyrðir,”segir Sigríður.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég man fyrst eftir mér þegar eldri systir mín, Anna Guðrún, kenndi mér að hekla á Barbie-dúkkuna mína. Þegar ég fór í barnaskóla hreif handavinnan mig og hefur ætíð síðan verið stór þáttur hjá mér. Mjög góð kennsla var í handavinnu, við þurftum að skila skyldu-stykkjum og passað var upp á að við lærðum fjölbreytta og nytsamlega hluti. Það hefur komið mér að góðum notum í dag.

Hvaða handavinna þykir þér skemmti-legust? Ég get ekki gert upp á milli handavinnu en í dag er prjón og hekl í fyrsta sæti. Ég tek móður mína mér til fyrirmyndar, Sigríði sem er 83 ára og er með margt í gangi í einu, hún er búsett í Hafnarfirði. Ég sendi henni uppskriftir og svo hjálpumst við að í gegnum símann ef hún strandar. Hún er alltaf með nýjar áskoranir sem ég tel mjög gott fyrir okkur þegar við förum að eldast, að gera ekki bara það sem við kunnum. Þannig að ég er með margt í takinu í einu.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég hef verið í bútasaumsklúbbn-um Bútós á Blönduósi, sá félagskapur er yndislegur. Einnig er ég með prjóna-kvöld á vegum félagsstarfsins. Að sitja með handavinnu í góðum hóp eða ein er slakandi og mjög gefandi.

Hvar færðu hugmyndir? Ég fylgist mikið með því sem er í gangi á netinu og skoða bækur og blöð. Þaðan fæ ég minn innblástur.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Mér þykir mest til koma það sem ég hef gert í handverki fyrir barnabörnin mín síðastliðin 25 ár.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Ég var að vinna með Kristrúnu Ingu Geirsdóttur sem var eigandi Quiltbúðarinnar á Akureyri á Löngumýri í Skagafirði við bútasaums- og prjónahelgar, átta helgar á ári og var það var mikill lærdómur. En stórt skarð varð þegar hún féll skyndi-lega frá 2. apríl 2015. Langar mig að þakka stafsfólki á Löngumýri og öllum þeim konum sem ég kynntist, alls staðar að á landinu fyrir góðan tíma.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir