394 tonna byggðakvóti á Norðurland vestra
Á fiskveiðiárinu 2021/2022 er almennum byggðakvóta úthlutað til 50 byggðarlaga í 29 sveitarfélögum þar sem þrjú byggðarlög fá 300 þorskígildistonna hámarksúthlutun og sextán byggðarlög fá 15 þorskígildistonna lágmarksúthlutun. Alls fá fimm byggðarlög á Norðurlandi vestra 394 tonn.
Á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis kemur fram að úthlutunin byggir á þeim reglum sem fram koma í 4. gr. reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, og upplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2011/2012 til fiskveiðiársins 2021/2022.
„Á heildina litið verða óverulegar breytingar á því magni í þorskígildistonnum sem einstök byggðarlög fá úthlutað. Þó eru það alls 8 byggðarlög þar sem úthlutun dregst saman milli ára sem skýrist einkum af samdrætti í heildarúthlutun milli ára. Samdráttur í heildarúthlutun frá fiskveiðiárinu 2020/2021 nemur 179 þorskígildislestum.“
Ennfremur segir í frétt ráðuneytisins að byggðarlög með færri en 400 íbúa fái 3.219 þorskígildistonnum úthlutað og byggðarlög með fleiri en 400 íbúa fá 1.404 þorskígildistonnum úthlutað.
Úthlutun eftir landshlutum skiptist á eftirfarandi hátt:
Austurland 779 t
Norðurland eystra 1.031 t
Norðurland vestra 394 t
Suðurland 170 t
Suðurnes 155 t
Vestfirðir 1.812 t
Vesturland 282 t
Á Norðurlandi vestra skiptast þessi 394 tonn á eftirfarandi byggðarlög:
Hvammstangi 70 t
Blönduós 15 t
Skagaströnd 154 t
Sauðárkrókur 140 t
Hofsós 15 t
Úthlutun á Norðurlandi vestra breytist ekki á milli ára en sundurliðun á úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðarlaga 2021/2022 má nálgast HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.