20 milljóna framlag í Umhverfisakademíu að Húnavöllum

Húnavellir. Mynd: Mats Wibe Lund
Húnavellir. Mynd: Mats Wibe Lund

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna hefur samþykkt 20 milljóna króna framlag vegna undirbúnings og stofnunar Umhverfisakademíu að Húnavöllum. Nefndin leggur til að 10 milljónir króna komi til greiðslu á þessu ári og 10 milljónir á því næsta. Samþykktin er gerð með fyrirvara um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu og jákvæðri umsögn menntamálaráðuneytisins um starfsemi skólans.

Kosið verður um sameiningu Blönduósbæjar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Skagabyggðar og Húnavatnshrepps á laugardaginn kemur, 5. júní. Í undirbúningi kosninganna kom fram sú hugmynd að koma á fót námi í umhverfisfræðum í héraðinu og byggir hún á því mati að það sé í raun engin skóli á Íslandi sem marki sér þá sérstöðu að vera umhverfisfræðsluskóli þótt víða sé hægt að finna greinar á sviði umhverfisfræða í námskrám háskólanna. Einnig var horft til þess að til staðar er góð aðstaða á Húnavöllum því húsnæði þar er orðið of stórt fyrir núverandi skólahald.

Sameiningarnefnd sveitarfélaganna fjögurra skipaði starfshóp þann 23. febrúar sl. til að meta hvort hugmyndin um Umhverfisakademíu væri fýsilegur kostur, skilgreina helstu áhrifaþætti og stilla upp hugmynd að formi og næstu skrefum ef ástæða þykir til áframhaldandi vinnu og skila því verkefni til sameiningarnefndar. Niðurstaða starfshópsins var sú að Umhverfisakademía þykir fýsilegur kostur og var lagt til að sveitarfélögin fjögur og ríkið myndu leggja til stofnframlag og tryggja rekstur skólans. Nú hefur fyrsta skrefið í þá átt verið tekið með framlagi úr Jöfnunarsjóði.

Sem fyrr segir verður kosið verður um sameiningu Blönduósbæjar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Skagabyggðar og Húnavatnshrepps á laugardaginn kemur, 5. júní. Alls eru 1.365 á kjörskrá, 657 konur og 708 karlar.

Allar nánari upplýsingar um sameininguna má finna á vefsíðunni hunvetningur.is.

RR ráðgjöf hefur stýrt sameiningarverkefninu og leiddi vinnu við greiningar.

 

 

Nánari upplýsingar veitir Magnús B. Jónsson,
formaður starfshóps um Umhverfisakademíu að Húnavöllum, í síma 899-4719.

 
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir