1.796 laxar veiddust í Miðfjarðará
Á Húnahorninu segir af því að laxveiðitímabilinu sé nú lokið í flestum ám landsins þetta sumarið. Í sjö helstu laxveiðiánum í Húnavatnssýslum veiddust samtals 4.550 laxar og er það 156 löxum meira en í fyrra þegar 4.394 laxar veiddust.
Í fréttinni segir: „Samkvæmt lista Landsambands veiðifélaga yfir 75 aflahæstu laxveiðiár landsins veiddist mest í Miðfjarðará af húnvetnsku ánum, 1.796 laxar sem er fjölgun um 71 lax frá fyrra ári. Alls veiddust 737 laxar í Víðidalsá en í fyrra veiddust 546 laxar í ánni.
Laxá á Ásum endaði í 600 löxum sem er 76 löxum færra en í fyrra. Blanda endaði í 418 löxum en í fyrra veiddust þar 475 laxar. Vatnsdalsá endaði í 427 löxum sem er átta löxum meira en í fyrra og Hrútafjarðará og Síká enduðu í 371 laxi sem er einum laxi minna en í fyrra. Laxveiðin í Svartá í sumar endaði í 201 laxi en í fyrra veiddust þar 190 laxar.
Af helstu laxveiðiám landsins hefur mest veiðst í Rangánum tveimur, ytri og eystri, en í þeim er enn verið að veiða lax. Ytri-Rangá stendur í 3.355 löxum og Eystri-Rangá í 3.201 laxi. Miðfjarðará er í þriðja sæti yfir aflahæstu ár landsins og er efst á lista þeirra vatnakerfa á landinu sem byggja veiði ekki alfarið á seiðasleppingum.“
Samkvæmt upplýsingum Feykis var veiðsumarið 2021 frekar dapurt líkt og síðustu tvö árin á undan. Veiði í Blöndu til að mynda hefur verið á niðurleið frá metárinu 2015 þegar um 4800 löxum var landað þar en í sumar aðeins 418 eins og áður kom fram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.