14 Framúrskarandi fyrirtæki á Norðurlandi vestra

Creditinfo hefur birt lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2019 og er það í ellefta sinn sem fyrirtækjum er veitt sú viðurkenning. Í ár eru 842 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi og fækkar þeim lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum. Fjórtán fyrirtæki á Norðurlandi vestra komast á lista Creditinfo að þessu sinni.

Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID. „Sú staðreynd að fækkunin er hlutfallslega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19 faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

 

Til að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja þurfa þau að uppfylla ströng skilyrði um stöðugan rekstur þrjú ár aftur í tímann. Skilyrðin hafa fram að þessu öll verið fjárhagsleg en frá og með næsta ári verður sú nýbreytni á að sjálfbærni verður kynnt inn sem skilyrði þess að fyrirtæki komist á lista Framúrskarandi fyrirtækja. 

 

Byggingarfyrirtækjum á lista fjölgar

Flest fyrirtæki á listanum eru meðalstór eða 384 talsins, 237 stór fyrirtæki og 221 teljast lítil. Íslenska Útflutningsmiðstöðin er í efsta sæti í flokki meðalstórra fyrirtækja á listanum og þar á eftir Logos og Men and Mice. Í flokki minni fyrirtækja var Hlaðir efst á lista og þar á eftir komu Heyrnartækni og Ó.D. ehf. Í flokki stórra fyrirtækja er Eyrir Invest í efsta sæti og kemur jafnframt nýtt inn á lista. Í öðru og þriðja sæti eru Marel og Landsvirkjun. Á listanum er jafnframt að finna fjölda nýrra stórra fyrirtækja, auk Eyris Invest hf; Landsnet hf., Útgerðarfélag Reykjavíkur hf., Dominos Pizza, Iceland Seafood International hf., Lýsi hf. og  Arctic Adventure hf.

 

Það fyrirtæki sem greiddi hæstu skattana fyrir rekstrarárið 2019 var Landsvirkjun en félagið greiddi ríflega 7 milljarða króna í skatta. Þar á eftir greiddi Marel rúmlega 4 milljarða króna í skatta og Össur tæplega 2,6 milljarða króna.

Þau fyrirtæki á Norðurlandi vestra sem komust á listann eru:

Sláturhús KVH á Hvammstanga, Ámundakinn á Blönduósi og Kaupfélag Skagfirðinga, FISK-Seafood, Steinull, Vörumiðlun, Vinnuvélar Símonar, Tengill, Ó.K. Gámaþjónusta-sorphirða, Norðurtak, Steypustöð Skagafjarðar, Friðrik Jónsson, Spíra og Raðhús, öll staðsett á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir