Ungmennaþing SSNV 2024 fer fram 11. september
Á vef SSNV segir að þann 11. september fer fram ungmennaþing SSNV í Félagsheimilinu á Blönduósi, er þetta annað árið í röð sem þingið er haldið. Ungmennaþingið er hluti af áhersluverkefninu Ungt fólk á Norðurlandi vestra og er markmið þess að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að tjá skoðanir sínar og ræða málefni sem brennur á því, valdefla og efla tengslanet þessa hóps. Jafnframt að kynna menningu landshlutans fyrir ungu fólki og fá þeirra sýn inn í samráðsvettvang sóknaráætlunar. Ungmennaþingið á þess vegna þátt í að gefa krökkum á svæðinu rödd og tækifæri til þess að hafa áhrif í landshlutanum, en við ætlum líka að skemmta okkur.
Ungt fólk á aldrinum 13-18 ára tekur þátt í þinginu í ár og hefur starfsfólk SSNV seinustu mánuði heimsótt skólana á svæðinu og kynnt þingið og verkefnið fyrir krökkunum. SSNV hefur fengið frábærar móttökur í skólunum og mikil ánægja hefur verið með heimsóknir okkar. Viljum við nota tækifærið og þakka fyrir okkur.
Á síðasta ungmennaþingi kom í ljós að flest öllum þátttakendum fannst mjög gott að búa Norðurlandi vestra, en 42% þeirra sáu samt ekki fyrir sér að búa hér í framtíðinni. Í ár er yfirskrift þingsins Okkar framtíð á Norðurlandi vestra og viljum við fá frá þátttakendum hvað það er sem þarf að vera til staðar svo að þau sjái framtíðina fyrir sér hér. Afurð þingsins mun verða nýtt við gerð nýrrar sóknaráætlunar fyrir árin 2025-2029.
Lára Kristín Skúladóttir verður vinnustofustjóri ásamt Erlingi Fannari Jónssyni. Fyrirlesarar dagsins eru Ragnheiður Aradóttir og Þorsteinn Bachmann en fyrirlestrar þeirra snúast að mestu leyti um húmor og gleði í dagsins amstri ásamt því að efla sjálfstraust ungs fólks.
Við hlökkum til að hitta þá krakka sem skólarnir hafa skráð á þingið og eiga góðan og gagnlegan dag saman.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.