Til hamingju sjómenn :: Leiðari Feykis
Næstkomandi sunnudag er sjómannadagurinn og víða á landinu haldinn hátíðlegur sjómönnum til heiðurs og þeirra fjölskyldum. Sums staðar fara hátíðahöld fram á laugardeginum með alls kyns viðburðum og skemmtilegheitum. Nú eru liðin 85 ár frá því að sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti en það var hinn 6. júní árið 1938 á tveimur stöðum á landinu, í Reykjavík og á Ísafirði. Það eru hins vegar ekki nema 36 ár síðan dagurinn varð lögskipaður frídagur sjómanna eða 1987 og jafnframt gerður að almennum fánadegi. Fram að því var það undir útgerðinni komið hvort sjómenn gátu glaðst í landi þann daginn.
Á WikiPedia kemur fram að að frá upphafi 20. aldar hafi tíðkast að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir þrettánda en nú er boðið upp á messur í mörgum kirkjum á sjálfan sjómannadaginn.
Á vef Almanaks Háskóla Íslands, almanak.hi.is, segir að hinn fyrsti sjómannadagur hafi verið mánudagur, annar í hvítasunnu en næstu ár hafi verið fylgt þeirri reglu sem á endanum var lögtekin árið 1987, að sjómannadagur skyldi vera fyrsti sunnudagur í júní nema hvítasunnu bæri upp á þann dag. Þá skyldi sjómannadagurinn vera viku síðar.
„Áður en lögin voru sett var vikið frá reglunni í þau sex skipti sem hér verða talin. Árið 1963 var sjómannadagurinn haldinn á annan í hvítasunnu. Árin 1965-1968 var haldið upp á daginn í maímánuði. Árið 1986 var deginum frestað til 8. júní vegna sveitarstjórnarkosninga í kaupstöðum og kauptúnahreppum laugardaginn 31. maí. Þegar almanakið fyrir 1986 var prentað, var ekki vitað um frestunina og því var 1. júní auðkenndur sem sjómannadagur það ár, en dagurinn hafði fyrst verið tekinn upp í almanakið árið 1984,“ segir í Almanakinu.
Sjómannadagurinn hefur ætíð vakið tilhlökkun hjá fólki, ekki síst börnum, sem fá að kynnast ýmsu forvitnilegu tengdu sjómennskunni og aðbúnaði sjómanna um borð í skipum, fá jafnvel að sigla og svo ærslast á bryggjunni eða fylgjast með leikjum fullorðinna sem ætíð vekja kátínu. Enn er mér í fersku barnsminni þegar siglt var á smábátunum út fyrir hafnargarðinn, harðfullorðnir sjómenn tókust á við höfnina, sumir smá blekaðir, kepptu í reiptogi í sundlauginni, naglaboðhlaupi og stórskemmtilegu pokahlaupi á íþróttavellinum. Nammi og fjör! Allir voru þátttakendur á einhvern hátt, kátir og glaðir. Ég býst við að eitthvað hafi breyst í tímans rás og það er allt í lagi. Sjómannadagurinn fylgir tíðarandanum og er það vel.
Feykir óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegan sjómannadag og hvetur alla til að samfagna þeim um helgina.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.