Samningur undirritaður um styrk til tækniaðstöðu á Hvammstanga
SSNV og Húnaþing vestra hafa undirritað samning vegna styrks til uppsetningar á tæknimiðstöð í anda FabLab smiðju í samfélagsmiðstöð í Félagsheimilinu á Hvammstanga að upphæð 10.500.000 kr. Fram kemur í frétt á síðu SSNV að verkefnið snýst um að koma upp nýsköpunar-, viðgerða- og þróunaraðstöðu fyrir íbúa á svæðinu, sem og aðstöðu fyrir félagsstarf.
„Virkilega spennandi verkefni hjá Húnaþingi vestra sem mun hvetja til nýsköpunar og auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu .Við hjá SSNV gleðjumst svo sannarlega yfir veittum styrk og óskum sveitarfélaginu til hamingju,“ segir í fréttinni.
Þá segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi innviðaráðherra, hafi úthlutað tíu styrkjum til verkefna á landsbyggðinni að upphæð 130 milljónum króna. Þar af hlaut Norðurland vestra 40 milljónir króna í styrk til þriggja verkefna í landshlutanum; FabLab smiðja og aðstaða til nýsköpunar og þróunar í Húnaþingi vestra, samvinnurými á Skagaströnd og tilraunagróðurhús í Húnabyggð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.