Réttarball Fljótamanna
Hið margrómaða Réttarball Fljótamanna verður haldið laugardagskvöldið 14. september í félagsheimilinu Ketilási. Ástarpungarnir frá Siglufirði munu halda uppi fjörinu frá klukkan 23:00 til 03:00.
Réttarball hefur verið haldið í Ketilásnum síðan elstu menn muna, aðeins einusinni fallið niður og þá í covid. Þá var reyndar dansað í fjárhúsum í staðinn, segir Hjördís á Brúnastöðum þegar Feykir sló á þráðinn í Fljótin.
Réttaballið er alltaf haldið í tengslum við aðal gangnahelgina að afloknum göngum og réttum sem núna ber upp á næstu helgi, ballið er laugardagskvöldið 14.sept. Þessir dansleikir hafa verið afar vel sóttir, ekki bara af heimamönnum og þeirra gangnaliði heldur líka af Skagfirðingum almennt og íbúum Fjallabyggðar. „Núna fara þessir dansleikir yfirleitt afar vel fram en áður fyrr voru böllin fræg fyrir slagsmál milli Siglfirðinga og Ólafsfirðinga,“ segir Hjördís á léttu nótunum og má segja í framhaldið að það sé nú engin nýlunda að það þurfi aðeins að takast á svona milli bæja.
Í auglýsingu viðburðar segir að ekki sé seinna vænna að fara að rifja upp danstaktana. Það má enginn láta sig vanta í þessa veislu, enda á ferðinni ekta alvöru sveitaball.
Góð tilboð verða á barnum og réttarkokteillinn á sínum stað og miðar seldir við hurð og aðgangseyrir: 5500 kr.
Aldurstakmark á ballið er 18 ár.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.