Opna Hótel Hvítserk á Vatnsnesi - Mjög spennt að kynnast samfélaginu betur

Gamli Vesturhópsskólinn sem þjónar nú ferðalöngum sem Hótel Hvítserkur. Mynd: Aðsend
Gamli Vesturhópsskólinn sem þjónar nú ferðalöngum sem Hótel Hvítserkur. Mynd: Aðsend

Í lok apríl opnaði nýtt hótel á Vatnsnesi dyrnar sínar fyrir gestum, Hótel Hvítserkur. Alexander Uekötter og Katharina Kujawa eiga og reka hótelið en þau hafa búið hér á landi í tæplega fimm ár.

Alex er 31 árs frá Münster í Þýskalandi og Kathi 27 ára frá Dortmund í sama landi. Þau hafa bæði stundað Íslandshestamennsku frá barnæsku og komu hingað til landsins til að vinna við tamningar, Kathi fyrst árið 2014 og Alex árið 2017. Þau fluttu endanlega til landsins í lok sumars 2018 er Kathi fór að nema hestafræði í Hólaskóla og Alex hóf störf hjá Þórarni Eymundssyni.

Í dag búa þau á Þorfinnsstöðum þar sem þau eru með búskap, tamningastöð, hrossarækt og hestaleigu, allt undir nafninu Vængstaðir – Icelandic Horse Centrum in Vatnsnes.

Blaðamaður Feykis hafði samband við þau og spurði þau hvað varð til þess að þau hófu hótelrekstur.

„Í fyrra vor fórum við að leita eftir jörð til að stofna tamningastöð og fundum við Þorfinnsstaði þar sem gamla Vesturhópsskólabyggingin fylgdi með. Húsið var byggt árið 1972 sem skóli og breytt í Hótel árið 2002. Planið okkar var ekki þannig séð að opna Hótel en okkur leist mjög vel á jörðina og staðsetninguna. Þess vegna ákváðum við að gera bæði, vera með tamningastöð og reyna að enduropna hótelið sem hafði verið lokað síðan 2020 vegna covid.“

Hótelið opnaði eins og fyrr segir í apríl en það hefur verið lítið að gera fyrstu tvo mánuðina en þau hafa ekki áhyggjur af því vegna þess að þá fá þau meira svigrúm til að læra á reksturinn.

„Það var svo sem bara gott fyrir okkur til að komast í gírinn og finna út hvernig það virkar að stjórna gistiheimili, þar sem við höfum litla sem enga reynslu í ferðaþjónustu. Bókanir hafa aukist í sumar og það bætist við á hverjum degi. Við erum mjög ánægð með það hvernig fyrsta árið fer af stað en það er u.þ.b. 60% bókað hjá okkur í ár eins og staðan er núna.“

Hótelið rúmar 34 manns í 15 herbergjum. Innifalið í gistingu er morgunmatur og einnig geta gestir og vegfarendur keypt kaffi, kökur og vöfflur ásamt því að hótelbarinn er opinn öllum.

„Við erum líka að bjóða upp á að leigja salinn eða allt hótelið fyrir t.d. hópa og ættarmót. Einnig erum við með sumarbústað sem er leigður út sér og hentar mjög vel t.d. fyrir hestaferðahópa. Auk þess erum við með hestaleigu fyrir vana knapa þar sem við erum að bjóða upp á 1-3 klst. ferðir fyrir minni hópa. Vinur okkar hann Felix Skubshewsik á líka heima hjá okkur, hann er veiðileiðsögumaður og bíður upp á slíkar ferðir.“

Það er mikilvægt að vera í góðu sambandi við nærsamfélagið þegar farið er í rekstur í litlu samfélagi og hafa þau Alex og Kathi ekki klikkað á því.

„Við fengum mikla hjálp frá þeim Haffí og Kidda í Dæli sem hjálpuðu okkur að komast inn í samfélagið hérna í Húnaþingi vestra. Við erum í samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands og ullarverksmiðjan Kidka á Hvammstanga hefur séð um að prjóna teppin fyrir hótelið og erum við mjög ánægð að vera í samstarfi við þau. Við reynum að kaupa allt sem hægt er “local” eins og í KVH og við bendum gestum okkar á veitingastaðina North-West, Sjávarborg eða Dæli þar sem við erum ekki ennþá með veitingastað. Við erum mjög spennt að kynnast samfélaginu betur sem hefur hingað til tekið mjög vel á móti okkur. Við viljum reyna að halda reglulega viðburði fyrir nágrannana eins og opna húsið okkar núna í maí.“

Þegar þau voru nýflutt í Þorfinnsstaði í ágúst í fyrra kom vegavinnuflokkur frá fyrirtækinu Steypudrang og gisti hjá þeim í rúma tvo mánuði.

„Mikið var gaman að fá þá en við hentum okkur líka í djúpu laugina, enda án reynslu í gistingu eða matseld. Þetta var krefjandi verkefni á meðan við vorum allt í senn að gera upp hótelið, girða og að sjálfsögðu temja. Ekki voru „ekta Íslendingar“ alltaf ánægðir með of mikið grænmeti og lítið kjöt í matnum eða of sterka rétti og almennt undarlegan mat sem Þjóðverjarnir voru að búa til fyrir þá. En kallarnir urðu opnari fyrir því að prófa nýja hluti og við lærðum meira inn á íslenska matargerð sem var mjög skemmtilegt að upplifa. Í lok verunnar var haldin veisla og við hlökkum mikið til að fá þessa vini okkar aftur til okkar.“

Að lokum eru þau Alex og Kathi spurð að því hvernig nærsamfélagið hafi brugðist við opnun hótelsins og hvaða áhrif þau telji Hótel Hvítserk hafa á nærliggjandi svæði.

„Það hefur verið mikið áhugi og nærsamfélagið hefur tekið mjög vel á móti okkur sem við erum afar þakklát fyrir. Þar sem það vantar mikið gistingu á þessu svæði finnst öllum mjög jákvætt að enduropna hótelið til þess að fleiri ferðamenn geti gist á svæðinu og eytt þar með meiri tíma í að skoða það. Líka finnst okkur eins og það sé áhugi í samfélaginu að hafa stað og tækifæri hérna út í sveitinni til að hittast og halda veislur sem okkur finnst mjög gaman.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir