Norðan hvassviðri og rigning eða slydda á morgun
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs sem tekur til Vestfjarða, Stranda og alls Norðurlands en búist er við hvassri norðanátt með ofankomu á morgun sem stendur í sólarhring. „Norðan og norðaustan 13-20 m/s með rigningu eða slyddu nærri sjávarmáli, en snjókomu á heiðum. Erfið akstursskilyrði vegna takmarkaðs skyggnis og snjóþekju, sérílagi á fjallvegum. Fólki er bent á að kanna aðstæður á vegum áður en lagt er af stað og fylgjast með veðri og veðurspám,“ segir á heimasíðu stofunnar.
Þegar horft er til alls landsins næsta sólarhringinn gera spar ráð fyrir norðaustan- og norðanátt, víða á bilinu 8-13 m/s. Él eða skúri á norðanverðu landinu og hita um eða yfir frostmarki. Bjartviðri sunnanlands með hita að 6 stigum yfir daginn.
Gengur í norðan 13-20 m/s á morgun, hvassast norðvestan- og suðaustantil. Rigning eða slydda nærri sjávarmáli á norðurhelmingi landsins, en snjókoma á heiðum. Þurrt að kalla sunnanlands. Hiti 1 til 7 stig, mildast við suðurströndina.
Á sunnudag:
Norðan 10-18 m/s, hægast austast. Slydda eða snjókoma norðanlands, rigning með austurströndinni, en bjartviðri sunnan heiða. Dregur úr vindi og úrkomu seinnipartinn. Hiti 0 til 6 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.