Kormákur/Hvöt hélt sæti sínu í 2. deild þrátt fyrir tap í lokaumferðinni
Það var hart barist í síðustu umferð 2. deildarinnar í tuðrusparkinu í gær. Hvorki hafði gengið né rekið hjá Kormáki/Hvöt í síðustu leikjum og útlitið ekki verulega gott fyrir lokaleikinn; erfiður andstæðingur í Ólafsvík á meðan lið KF spilaði heima á Ólafsfirði gegn Hetti/Huginn sem hafði tapað fimm leikjum í röð og virtust hættir þetta sumarið. Það eina sem spilaði með Húnvetningum var að þeir höfðu stigi meira en lið KF fyrir síðustu umferðina og það reyndist heldur betur mikilvægt þar sem bæði lið töpuðu og bættu því ekki við stigasafnið. Kormákur/Hvöt náði því í raun þeim frábæra árangri að halda sæti sínu í 2. deild og það voru víst ekki margir sem veðjuðu á það fyrir mót.
Það byrjaði ekki gæfulega hjá Húnvetningum í Ólafsvík því heimamenn náðu forystunni strax á þriðju mínútu með marki Luke Williams. Luis Ocerin bætti við öðru marki á 14. mínútu og staðan 2-0 í hálfleik. Ingvi Rafn gaf gestunum von með marki á 51. mínútu en tíu mínútum síðar gerði markamaskínan Gary Martin út um leikinn. Lokatölur því 3-1 og nú þurfti að treysta á Höttur/Huginn kæmi til bjargar Húnvetningum.
Sem þeir, nokkuð óvænt, gerðu. Lið KF lenti undir strax eftir sex mínútur og síðan áttu gestirnir eftir að bæta við tveimur mörkum. Það væri ólíkt KF að gefast upp og þeir minnkuðu muninn í 2-3 með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla og þá voru enn um 40 mínútur eftir. Fleiri urðu mörkin þó ekki og Húnvetningar því áfram í 2. deild. Lið KF spilar hins vegar í 3. deild að ári líkt og Tindastóll.
Fyrir lokaumferðina hafði lið Selfoss tryggt sér sæti í Lengjudeildinni en þrjú lið börðust um að fylgja þeim upp. Þau unnu öll leiki sína og þar sem Völsungur Húsavík stóð þeirra best fyrir leiki gærdagsins þá fylgja þeir Selfyssinum upp eftir ótrúlegan 3-8 sigur á KFA.
Þess má geta að áður en bolta var sparkað í vor stóð Fótbolti.net fyrir spá fyrirliða og þjálfara liðanna í deildinni og þar lenti lið Kormáks/Hvatar langneðst. Það má því segja að lið Húnvetninga hafi komið skemmtilega á óvart og sat raunar aldrei í fallsæti allt tímabilið. En fyrst og síðast; til hamingju Húnvetningar með sætið í 2. deildinni!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.