Konur til liðs við Brunavarnir Húnaþings vestra í fyrsta sinn
Fimm einstaklingar gengu formlega til liðs við Brunavarnir Húnaþings vestra nú í vikunni. Í tilkynningu frá Vali Frey Halldórssyni slökkviliðsstjóra á heimasíðu Húnaþings vestra segir hann þetta vera ákaflega góða viðbót við þann góða hóp slökkviliðsmanna sem fyrir er í liðinu. Hann segir það vera frábærar fréttir fyrir samfélagið að tveir nýliðanna eru konur en þetta er í fyrsta skipti sem konur ganga í hópinn.
„Hlutfall kvenna í störfum slökkviliðs og sjúkraflutninga á landinu hefur hækkað mikið undanfarin ár sem er ákaflega jákvæð þróun. Ég tel okkur mjög heppin að fá þau öll inn á sama tíma og alls ekki sjálfgefið fyrir lítið sveitarfélag eins og okkar að eiga jafn öflugan hóp slökkviliðsmanna - og nú kvenna á okkar svæði.
Hann segir slökkviliðið taka vel á móti þessum fríða hópi og bjóði þau öll hjartanlega velkomin til starfa og muni gera sitt allra besta til þess að nýliðarnir fái sem besta þjálfun og farnist vel í krefjandi starfi sem starf slökkviliðsmanns er.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.