Hálka og krap á þjóðvegi 1
Það hefur verið leiðinlegt veður á Norðurlandi síðasta sólarhringinn og rúmlega það. Þó má þó kannski segja að veðrið hafi ekki verið verra en spár gerðu ráð fyrir en Veðurstofan hafði sett á appelsínugula viðvörun sem átti að renna út um klukkan 18 í dag. Nú rennur sú appelsínugula út kl. 9 eða bara rétt í þessu og við tekur gul og vægari viðvörun sem dettur út um kl. 15 í dag.
Hitinn prílar löturhægt upp á við þegar líður á daginn og smám saman styttir upp. Þó mun regnið endast hvað lengst í Skagafirði þar sem ekki verður skrúfað fyrir fyrr en með kvöldinu. Það birtir svo til á morgun og spáð ágætu veðri á fimmtudag og föstudag en þá kólnar reyndar á ný og aðfaranótt laugardags er spáð allt að níu stiga frosti í innsveitum Skagafjarðar. Helgarspáin er svo ansi haustleg; norðanátt og hitinn í lægri kantinum.
Færð á vegum
Á Sauðárkróki hefur verið slydda en jörð er ekki hvít, snjórinn kannski niður í miðjar hlíðar í nágrenni Króksins. Þrátt fyrir að vart sé hundi út sigandi þá var sá fyrsti sem blaðamaður Feykis gekk framhjá þegar hann kom til vinnu í Kjarnanum í morgun léttklæddur og í stuttbuxum – að vísu ekki orginali. Kannski er veðrið bara hugarástand?
Allir helstu vegir á svæðinu eru færir nema hvað Lágheiði er merkt ófær á umferðarvef Vegagerðarinnar. Það er örugglega ekki marga sem físir í að fara Siglufjarðarveg í þessu veðri en vegurinn er greiðfær þrátt fyrir sudda og 16 metra á sekúndu. Krapi er á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði og sömuleiðis á Þverárfjallsvegi sem var mokaður eða skafinn í morgun. Unnið er að því að hreinsa veginn um Blönduhlíð.
Hálkublettir eru á þjóðvegi 1 í Langadal og þá er hálka á Holtuvörðuheiði. Hitastig á þessum vegum er víðast hvar við frostmark eða jafnvel þar undir. Allir vegir í Vestur-Húnavatnssýslu eru merktir greiðfærir.
Það er því vissara fyrir ökumenn og aðra sem eru á ferðinni að fara að öllu með gát.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.