Appelsínugul viðvörun og norðanhvellur í kortunum
Í tilkynningu frá almannavörnum á Norðurlandi vestra er vakin athygli á slæmri veðurspá fram á seinni hluta þriðjudags. Búið er að gefa út af Veðurstofu að frá og með seinnipartinum á morgun, mánudegi, verði gefin út appelsínugul veðurviðvörun sem að nær langt fram á þriðjudag.
Spáð er mikilli úrkomu sem mun að líkindum falla sem slydda eða snjór á fjallvegum. Vegfarendur eru því hvattir til að fylgjast mjög vel með færð og veðri á vefjum Veðurstofunnar og Vegagerðar.
Um miðnætti í kvöld má vænta þess að það byrji að rigna, í það minnsta í Skagafirði og síðan bætast Húnavatnssýslur við þegar á líður. Reikna má með að í Skagafirði og við Tröllaskagann rigni samfleytt í tæpa tvo sólarhringa og er nú vart á bætandi – þá ekki hvað síst á Siglufjarðarveginum. Spáð er stífri norðanátt, 10-15 m/sek og hita á bilinu 2-5 gráður. Kaldara verður eðlilega til fjalla og þar mun væntanlega snjóa.
Vonskuveður í sunnanroki í síðustu viku
Ekki er langt síðan Veðurstofan skellti á okkur gulri veðurviðvörun vegna sunnanáttar, í raun aðeins fjórir dagar. Reyndist veðrið jafnvel töluvert verra en spáð var, stormurinn sterkari og þótti mörgum Króksaranum nóg um,. Lá við að fólk tækist á loft þar sem stífustu strengirnir náðu sér upp.
Björgunarsveitin Skagfirðingasveit fékk tvö útköll sl. fimmtudag; vegna foks á sveitabæ og þá þurfti að hemja eitt trampólín á Króknum. Hafdís Einarsdóttir hjá Skagfirðingasveit tjáði Feyki að björgunarsveitarfólk hafi tekið rúnt á Króknum til að kanna hvort fleiri þyrftu aðstoð og var þá eitt trampólín til viðbótar bundið niður í samráði við eiganda. Þá sagði hún að Björgunarsveitin Grettir á Hofsósi hefði sinnt útkalli þar sem gamalt hesthús var að fjúka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.