Að lifa eins og blóm í eggi | Leiðari 34. tbl. Feykis

„Nei Óli, dreptu mig ekki!!!“ söng í einum starfsmanni Nýprents fyrir nokkrum dögum. „Jahérna, er hann þá svona!?“ gætu lesendur leiðara Feykis hugsað þegar þeir lesa þetta.

Þó oft sé talað um venjulegt fólk þá er kannski enginn venjulegur – engir eru alveg, alveg eins, ég held að það sé staðreynd. Það sem einum þykir venjulegt þykir einhverjum öðrum afar spes.

Undirritaður hefur alla ævi búið í foreldrahúsum. Það var ekki normið í mínum árgangi en ku vera að komast pínu í tísku – kannski ekki endilega valkvætt. Mér hefur líka alltaf þótt óskaplega fínt ef einhverjir hafa verið til í að redda einu og öðru fyrir mig ef ég er ekki 100% viss um hvernig á að gera hlutina. Lyklalausir bílar og Apple-tölvur eru dæmi um snilld í mínum augum – jafnvel örbylgjuofnar.

Eitt af því sem ég hef ekki mikið þurft að hugsa um er að elda mat. Það bara þróaðist þannig. Í gamla daga var mamma alltaf heima, hún sá um að elda og vildi allt spikk og span í sínu eldhúsi. Einn bakstursdagur hjá bróðir mínum varð til þess að hún vildi helst ekkert að við værum að flækjast þar. Hún var samt fegin þegar pabbi komst á aldur, hætti að vinna, og þar sem hann var vanur að vera undir stýri þá tók hann við stjórninni í eldhúsinu. Hann hafði unnið í kjötbúðinni hjá Sveini Guðmunds í gamla daga og stundum dregið kjötiðnaðarmanninn og vísnaskáldið Halla Hjálmars að landi þegar hugur hans var ekki við kjötfars- og bjúgnagerð. Hann var því vanur maður.

„En hvað með þetta í byrjun leiðarans, þetta virtist stefna í eitthvað spennandi?“ spyr kannski einhver. Það er hinsvegar ekki alltaf allt sem sýnist. „Nei Óli, dreptu mig ekki!!!“ Þessi upphrópun í upphafi leiðarans var ekki vegna þess að ritstjóri ógnaði samstarfsmanni – það var annar tónn í þessari upphrópun. Þessa dagana býr ritstjórinn einn heima og það kallar á nýjar áskoranir. Ástæðan fyrir upphrópuninni í byrjun leiðarans var sú að ég viðurkenndi fyrir samstarfsfólkinu að ég hefði daginn áður brotið egg í fyrsta skipti í 38 ár, eða frá því í heimilisfræði hjá Önnu Rósu í þánefndum 9. bekk.

Ég semsagt steikti beikon og spældi egg alveg sjálfur. Þetta tókst svo vel að ég gerði gúrme eggjaköku í síðustu viku. Helvíti var hún góð.

Óli Arnar Brynjarsson,
ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir