Vonskuveður gengur yfir landið
Veðurstofan varar við vonskuveðri á landinu í dag en djúp lægð gengur yfir landið. Verst virðist þó veðrið eiga að vera á sitt hvoru horni landsins; Vestfjörðum og á auðausturlandi. Reiknað er með talsverðri rigningu og jafnvel roki hér á Norðurlandi vestra seinnipartinn í dag en stendur stutt yfir.
Veðurstofan gerir ráð fyrir skaplegu veðri að mestu næstu sólarhringana, engum öfgum á okkar svæði í það minnsta en það virðist gert ráð fyrir ýmist rigningu, slyddu eða snjókomu fram yfir helgi. Norðanátt í dag, sunnanátt á morgun og norðanátt á sunnudag. Útlit fyrir vetrarveður á miðvikudaginn með snjókomu
Spáin fyrir daginn í dag og morgundaginn á Ströndum og Norðurlandi vestra er eftirfarandi: Vaxandi norðaustanátt, 10-15 með rigningu síðdegis. Hlýnandi. Heldur hægari í kvöld og styttir víða upp. Suðvestlæg eða breytileg átt á morgun og dálítil rigning eða súld. Hiti 2 til 7 stig á morgun.
Alla jafna eru vegir greiðfærir í Húnavatnssýslum en þó eru hálkublettir á Miðfjarðarvegi og í Vatnsdal. Í Skagafirði eru víða hálkublettir og því vissara að hafa varann á.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.