Vill að Hólar verði á pari við Þingvelli

Hólmfríður Sveinsdóttir rektor á Hólum. MYND: GG
Hólmfríður Sveinsdóttir rektor á Hólum. MYND: GG

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, lagði út frá því í ávarpi sem hún flutti við brautskráningarhátíð skólans, að Háskólinn á Hólum skipti máli og mikilvægt sé að hann haldi áfram að vaxa og dafna. Hún telur að þrennt þurfi að gerast til að nýta tækifærin til fulls til að efla skólann.

Í fyrsta lagi sé mikilvægt að skilgreina hlutverk háskólans á Hólastað og setja fókus á skólastarfsemina og losa skólann undan þeim skyldum sem fylgja staðarhaldinu á Hólastað, í öðru lagi að byggja state of the art kennslu- og rannsóknarhúsnæði fyrir starfsemi skólans og í þriðja lagi að brýnt sé að auka samstarf við aðra háskóla. Hvað það atriði varðar hefur Feykir þegar sagt frá myndun háskólasamstæðu Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum sem háskólaráð beggja skólanna hafa samþykkt.

Í ávarpi Hólmfríðar kom fram að hlutverk skólans varðandi staðarhald felist m.a. í þjónustu við ferðamenn, í viðhaldi minja og í þjónustu við íbúa staðarins. Þessu vill hún breyta. „Í mínum huga á að byggja Hólastað upp sem þjóðmenningarstað þar sem minjum, menningu og sögu staðarins verða gerð þau skil sem þeim ber. Ég er þeirrar skoðunar að Hólastaður eigi að fara undir forsætisráðuneyti Íslands og njóta sömu virðingar og vegsemdar og aðrir þjóðmenningarstaðir á Íslandi, eins og t.d. Þingvellir.“

Forsætisráðuneytið hefur, að sögn Hólmfríðar, tekið vel í þessa hugmynd og hefur skipað níu manna starfshóp sem í sitja fulltrúar frá fimm ráðuneytum ásamt fulltrúum frá vígslubiskupsembættinu á Hólum, Háskólanum á Hólum, SSNV og svf. Skagafirði. Starfshópunum er ætlað að skila af sér skýrslu um framtíðarskipulag Hólastaðar í byrjun október nk. „Það er von mín að Hólastaður muni í framtíðinni hafa fimm stoðir; háskólastoð, vígslubiskupsstoð, ferðaþjónustustoð, íbúaþjónustustoð sem og menningar- og sögustoð,“ segir Hólmfríður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir