Valskonur enn númeri of stórar fyrir Stólastúlkur

Stólastúlkur fagna marki Elísu Bríetar. MYND: SIGURÐUR INGI
Stólastúlkur fagna marki Elísu Bríetar. MYND: SIGURÐUR INGI

Tindastóll og Íslandsmeistarar Vals mættust á Króknum í gær. Stólastúlkur hafa ekki átt góðu gengi að fagna gegn Valsliðinu frekar en önnur lið og það varð engin breyting á því í gær. Heimaliðið stóð þó fyrir sínu fyrsta klukkutímann, jafnt var í hálfleik en þá hafði hvort lið gert eitt mark, en gæði stúlknanna hans Péturs okkar Péturssonar skinu í gegn þegar á leið og lappir Stólastúlkna fóru að þyngjast. Lokatölur 1-4.

Jasmín Erla kom gestunum yfir á 18. mínútu eftir að hafa fengið boltann inn á teig Tindastóls og rennt boltanum framhjá Monicu í markinu. Tæpum tíu mínútum síðar jafnaði lið Tindastóls en þá vann Laufey Harpa boltann og renndi honum á Elísu Bríeti inni á teig Vals, hún náði fínu skoti, lyfti boltanum yfir markvörð gestanna og í fjærhornið. Rétt fyrir hlé átti Jordyn ágætan skalla en naumlega framhjá. Staðan 1-1 í hálfleik.

Það má segja að vendipunktur leiksins hafi orðið eftir klukkutíma leik þegar Valskonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom inn á í framlínu gestanna. Þremur mínútum síðar hafði Jasmín komið Val yfir, renndi þá boltanum í autt markið eftir geggjaða fyrirgjöf. Berglind gerði síðan tvö síðustu mörk leiksins með fjögurra mínútna millibili; slúttaði glæsilega á 75. og 79. mínútu og gerði út um vonir Stólastúlkna um stig gegn meisturunum.

Við höfum trú á okkur og því sem við eigum að gera

„Mér fannst lokaúrslitin sanngjörn, já,“ sagði Donni þjálfara þegar Feykir spurði hann að leik loknum hvort úrslitin hefðu verið sanngjörn. „Fyrri hálfleikurinn var til fyrirmyndar bæði varnarlega og í raun sóknarlega líka. Skoruðum frábært mark og í raun pínu okkar klaufagangur sem orsakar fyrsta markið sem þær skora. Brjáluð vinnusemi og mikil hlaup. Fyrsta korterið í seinni eða fram að öðru markinu var sama uppi á teningnum. Síðan er bensínið bara búið hjá okkur, því miður, og þær ganga á lagið með öll sín gæði og bara skora frábær mörk.“

Donni sagði Val vera með algerlega geggjað lið og mjög vel spilandi. „Þegar þær eru í stuði og tikka vel þá eru þær bestar. Það gerðist eftir ca. 65 mínútur en fram að því voru leikmenn Tindastóls mjög flottar. Við samt gáfumst aldrei upp og allar gerðu sitt allra besta og þær sem komu inn á gerðu mjög vel og fengu mikilvægar mínútur. Valskonur voru bara betri.“

Lið Tindastóls tefldi fram nýjum leikmanni, Elise Anne Morris. Hvað geturðu sagt okkur um hana? „Elise er flottur karakter sem mér fannst heilt yfir koma vel inn í þetta í gær. Það er aðeins síðan hún spilaði síðast en hún á eftir að komast aðeins betur inn í hlutina hjá okkur. Hún er fín á boltanum og mjög líkamlega sterk og eins og áður segir góður karakter.“

Maria Del Mar, sem átti að koma inn í liðið í stað Gwen, hefur enn ekkert spilað. Hvað veldur? „Mar er buin að vera að glíma við meiðsli frá þvi eftir fyrstu æfingu, því miður, og það á aðeins eftir að skýrast hvernig það fer.“

Næstu tveir leikir eru hér heima, fyrst gegn Þór/KA og síðan lið Þróttar. Hvað þurfa Stólastúlkur að gera til að ná í stig gegn þessum liðum? „Við þurfum að þora að halda í boltann og spila okkar fótbolta. Vinna áfram í varnarleiknum því við erum jú buin að fá á okkur 30 mörk hingað til sem er ekki gott auk þess að skora ekkert sérstaklega mikið. Það er ennþá allt galopið í þessu og við höfum trú á okkur og því sem við erum að gera,“ sagði Donni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir