Upp'á palli, inn'í tjaldi, út'í fljóti með Áskeli Heiðari

Svona líta útvarpsmenn út. AÐSEND MYND
Svona líta útvarpsmenn út. AÐSEND MYND

„Hvernig er það, er ekkert að gera hjá þér Heiðar? Hvað ertu að gera í útvarpinu?“ spyr Feykir einn splunkunýjasta útvarpsmann landsins. Hann svarar því til að sem betur fer sé enginn skortur á skemmtilegum verkefnum. „Það stærsta er auðvitað að kenna viðburðastjórnun á Hólum, þar kemur nýr og spennandi hópur af nemum til okkar í lok ágúst, metfjöldi í viðburðastjórnuninni. Svo er Bræðslan handan við hornið og svo pínu sumarfrí.“

Það eru sennilega einhverjir búnir að tengja að umræddur Heiðar er Áskell Heiðar Ásgeirsson sem jafnan lætur að sér kveða í mannlífinu á jákvæðan hátt og lætur verkin tala. Hann er nú mættur á öldur ljósvakans með þætti á Rás2 sem hann kallar Útihátíðir. Feykir var með leiðindi og heimtaði svör við nokkrum spurningum.

Hann segir að uppdúkkun sín í útvarpi sé löng saga! „Ég tók þátt í rekstri Rásar Fás í Fjölbraut á Króknum þegar ég var þar nemandi fyrir nokkrum árum, hitti nokkrar útvarpsstjörnur á þeim tíma og var staðráðinn í því um tvítugt að verða einn af þeim. Það varð aldrei en þessi draumur blundaði í mér, ég ákvað svo á fimmtugsafmælisárinu að nú yrði ég að gera eitthvað, sótti um styrk í Uppbyggingarsjóð til að gera hlaðvarp um sögu íslenskra útihátíða og fékk fínan styrk í verkefnið. Ég byrjaði svo að taka viðtöl og var á leið í hlaðvarpsgerð þegar ég hitti félaga inni á RÚV og úr varð þessi hugmynd að gera þætti fyrir Rás 2. Útihátíðirnar valdi ég því að mér finnst þetta áhugavert viðfangsefni og auðvitað mjög tengt minni fræðigrein á Hólum.“

Hversu marga þætti seturðu saman? „Þetta endaði sem fjórir þættir sem eru sendir út alla sunnudaga núna í júlí. Ég tek ca. einn áratug fyrir í hverjum þætti, eitísið er búið og í næsta þætti koma til sögunnar hátíðir í níunni eins og Uxi á Kirkjubæjarklaustri og fleiri góðar. Í síðasta þættinum gerum við svo aðeins upp þessa sögu og lítum á nútímann og jafnvel framtíðina. Það var mín lukka að ég fékk frábæra útvarpskonu, Gígju Hólmgeirsdóttur á Akureyri, sem framleiðanda hjá mér – ef þér finnst þetta hljóma sæmilega þá á hún heiðurinn af því.“

Asnalega ungur þegar hann fór á sína fyrstu útihátíð

Hvaða útihátíðir ætlarðu að tækla í þáttunum? „Ég fer vítt og breytt um landið, frekar óskipulega. Ég lagðist í heimildavinnu, skoðaði umfjöllun blaðanna og svo ráðast efnistökin líka nokkuð af því hvað viðmælendurnir hafa að segja. Hér á Norðurlandi vestra er það helst Húnaver sem fær athygli, Jakob Frímann segir skemmtilegar sögur af því hvernig það kom til að hátíð varð til þar 1989 og sömuleiðis segir hann frá viðskiptum sínum við sýslumenn og skattstjóra.“

Varst þú sjálfur duglegur að sækja annarra manna hátíðir? „Það var auðvitað lenska fyrir austan þegar ég var unglingur að fara í Atlavík. Ég var nú bara 11 ára þegar Ringó kom og hitti hann því ekki en þegar horft er til baka var ég nú asnalega ungur þegar ég fór þangað 1988. Það var síðasta hátíð Stuðmanna og mjög eftirminnileg, af hverju verður ekki farið út í hér.“

Nú er örugglega hægt að komast í endalausar sögur af útihátíðum, kannski ekki allar eftir hafandi. Er einhver ein sem mætti birta í Feyki sem þú værir til í að segja frá? „Ég er nú betri í að fá aðra til að deila sínum sögum en að segja þær sjálfur! En ég kann eina af Austfirðingi sem var á leið á Húnavershátíð en staldraði einhverra hluta vegna við á tjaldsvæðinu á Sauðárkróki. Á laugardeginum vaknaði hann upp, rölti í miðbæinn og barði dyra á Hótel Mælifelli. Til dyra kemur maður sem skilur ekkert í þessum mannaferðum. Okkar maður spyr hann hvað klukkan sé. Hann fær það svar að hún sé átta og þá spyr hann, ekki alveg með á nótunum: „Kvöld eða morgun?“ Hvort hann komst svo áfram í Húnaver fylgdi ekki sögunni en það var oft djammað meira af kappi en forsjá á þessum árum!“

Hvað tekurðu fyrir næst og hvar og hvenær á fólk að hlusta? „Næsti þáttur er á sunnudaginn kl. 11 á Rás 2, þar fer ég yfir síðasta áratug síðustu aldar. Þættirnir koma svo í spilara Rásar 2 en þau sem geta alls ekki beðið geta nálgast þá á hlaðvarpsveitum, amk. á Spotify,“ segir Heiðar að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir