Tjón talsvert vegna flóða í Fljótum

Séð yfir ós Miklavatns í Fljótum.  MYND: HALLDÓR GUNNAR
Séð yfir ós Miklavatns í Fljótum. MYND: HALLDÓR GUNNAR

Í síðustu viku greindi Feykir.is frá því að tún og engjar í nágrenni Miklavatns í Fljótum væru víða komnar á kaf en vatnshæðin hefur sjaldan verið jafn há og þessa dagana. Feykir spurði bændurna á Brúnastöðum, Stefaníu Hjördísi Leifsdóttur og Jóhannes Ríkharðsson, út í ástandið og sögðu þau vatnsstöðu Miklavatns í Fljótum hafa hækkað mjög mikið síðastliðin þrjú ár. Var svo komið nú í byrjun júlímánaðar að hún var a.m.k. einum metra yfir eðlilegu ástandi.

Þau segja að ós vatnsins hafi verið hálf stíflaður og ekki getað tekið við öllu því vatni sem vill til sjávar. Stafar þetta ástand, sem hefur farið versnandi með hverju árinu, fyrst og fremst af miklum sandburði sem hefur átt sér stað í norðvestan stór brimum við ósasvæðið.

„Hér á Brúnastöðum voru um 10 hektarar af slægju/beitarlandi undir vatni áður en gripið var til aðgerða, land sem klárlega ónýtist með tímanum. Svipaða sögu má segja af landi jarðanna Nýræktar, Minna-Holts, Stóra-Holts og Helgustaða. Þegar þetta ástand bættist ofan á mikið kal í túnum í vor var staðan ekki glæsileg.“ Þau segja að þessi háa vatnsstaða hafi einnig haft mjög neikvæð áhrif á æðarvarp kringum vatnið. „Á Hraunum þar sem er mjög stórt varp ónýttist til að mynda um þriðjungur af æðarvarpinu vegna vatnsgangs fyrir hretið í byrjun júní. Þá hefur þessi háa vatnsstaða mjög neikvæð áhrif á ástand lax og silungs á vatnasvæðinu. Má þar sérstaklega nefna mikla hættu á arfráni fugla á seiði sem eru að ganga til sjávar.“

Í byrjun síðustu viku var farið með stóra gröfu í ósinn til að reyna að breikka og dýpka hann. Sú aðgerð hefur skilað töluverðri lækkun á yfirborði Miklavatns en ljóst er að betur má ef duga skal.

Þegar Feykir hafði sam-band við bændurna á Brúnastöðum sl. sunnudag var vatnshæðin enn u.þ.b. 0,5 m yfir venjulegri vatnshæð en að þeirra sögn er stefnt að því að nota sumarið til að fylgjast með ástandi óssins og finna varanlega lausn á þessu vandamáli í samráði við færustu sérfræðinga landsins á þessu sviði svo ekki verði sama ástand að vori.

- - - - - 
UPPFÆRT: Hlekkur á myndband >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir