Tjaldað í Héðinsminni

Frá sýningu Varmahlíðarskóla á Tjaldinu. Myndir: Íris Olga Lúðvíksdóttir.
Frá sýningu Varmahlíðarskóla á Tjaldinu. Myndir: Íris Olga Lúðvíksdóttir.

Nemendur leiklistarvals á unglingastigi í Varmahlíðarskóla sýndu á dögunum leikritið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason í félagsheimilinu Héðinsminni. Leikstjóri verksins er Íris Olga Lúðvíksdóttir, kennari við skólann. Sýningin var hluti af leiklistarverkefninu Þjóðleik sem Þjóðleikhúsið stendur fyrir og hóf göngu sína á Austurlandi fyrir tíu árum. Verkefnið er haldið annað hvert ár og hefur fyrir löngu breiðst út til annarra landshluta. Þetta er í fjórða sinn sem Varmahlíðarskóli tekur þátt í verkefninu. 

Fyrirkomulagið er á þá vegu að annað hvert ár fær Þjóðleikhúsið þrjú íslensk leikskáld til að skrifa leikrit sem henta til uppsetningar fyrir ungt fólk og velja leikhóparnir á milli þeirra í samráði við leiðbeinanda sinn. Á vorin er svo haldin leiklistarhátíð í hverjum landshluta þar sem hóparnir koma saman. Að þessu sinni var hún haldin á Hólmavík en nemendur Varmahlíðarskóla áttu því miður ekki kost á að sækja hana.  

Leikritin sem stóðu til boða að þessu sinni voru reyndar ekki alveg glæný þar sem sú leið var farin í haust að velja fjögur handrit úr hópi allra þeirra sem samin hafa verið á síðustu tíu árum. Þetta voru leikritin Tjaldið eft­ir Hall­grím Helga­son, Eft­ir lífið eft­ir Sig­trygg Magna­son, Dúkku­lísa eft­ir Þór­dísi Elvu Þorvalds­dótt­ur og Íris eftir Bryn­hildi Guðjóns­dótt­ur og Ólaf Egil Eg­ils­son. 

Tjaldið fjallar um nokkra unglinga sem fara á útihátíð um verslunarmannahelgina og stendur vinahópurinn frammi fyrir því hörmulega atviki að einni

stúlkunni úr hópnum er nauðgað. Í framhaldi af því er velt upp fjölmörgum siðferðislegum spurningum, s.s. hvað nauðgun sé, hvort það sé rétt að kæra, hvort það skipti máli að annar gerandinn er einn vinsælasti strákurinn í hópnum, hvort maður eigi skilyrðislaust að standa við bakið á vinum sem framið hafi glæpi, hvort rétt sé að taka lögin í sínar hendur o.s.frv. 

Leikritið var sett upp í sal litla félagsheimilisins í Héðinsminni og tjaldað í rökkri á salargólfinu. Var það vel til fundið þar sem með því móti skapaðist enn betri nánd við áhorfendur en annars hefði verið. Leikmyndin var einföld, aðeins tjaldið og hið dæmigerða rusl sem fylgir slíkum samkomum á víð og dreif. Krakkarnir fóru vel með hlutverk sín og komu textanum vel til skila sem, þrátt fyrir alvarleika málsins, var bráðfyndinn á köflum. Enginn vafi er á því að flestir hafa farið út af þessari sýningu með fjölmargar spurningar í farteskinu til að velta fyrir sér. Flott hjá ykkur krakkar! 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir