Þrjátíu ár frá stofnun Félags eldri borgara í Skagafirði

Eins og fram kom í erindi Stefaníu Sifjar Traustadóttur, forstöðumanns Dagdvalar aldraðra, vilja allir verða gamlir en enginn vera gamall enda var engan gamlingja að finna í salnum í Ljósheimum sl. mánudag, aðeins fullorðið fólk sem ungt er í anda. Séra Sigríður Gunnarsdóttir var á sömu nótum og sagði skilin vera óljós en rifjaði upp að einu sinni hafi hún heyrt að fólk væri orðið gamalt þegar það væri komið með meiri áhuga á ættfræði en kynlífi. Hér sést í bakið á hluta stjórnar, Stefán formaður í pontu, þá Björn, sem einnig var veislustjóri, Ásta, Ingunn og Steinunn lengst til vinstri. Myndir: PF.
Eins og fram kom í erindi Stefaníu Sifjar Traustadóttur, forstöðumanns Dagdvalar aldraðra, vilja allir verða gamlir en enginn vera gamall enda var engan gamlingja að finna í salnum í Ljósheimum sl. mánudag, aðeins fullorðið fólk sem ungt er í anda. Séra Sigríður Gunnarsdóttir var á sömu nótum og sagði skilin vera óljós en rifjaði upp að einu sinni hafi hún heyrt að fólk væri orðið gamalt þegar það væri komið með meiri áhuga á ættfræði en kynlífi. Hér sést í bakið á hluta stjórnar, Stefán formaður í pontu, þá Björn, sem einnig var veislustjóri, Ásta, Ingunn og Steinunn lengst til vinstri. Myndir: PF.

Það var þétt setinn bekkurinn í Ljósheimum þegar Félag eldri borgara í Skagafirði fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu sl. mánudag. Yfir hundrað manns nutu veislumatar og skemmtunar og var formaðurinn, Stefán Steingrímsson, afar ánægður með daginn.

„Það var yfirfullt húsið, alveg stappað. Það voru nokkrir sem tóku til máls en það var mikið sungið. Til dæmis Kór eldri borgara sem söng alveg frábærlega, hörku söngur. Geirmundur Valtýsson spilaði dinnermúsík undir borðum og fjöldasöng og svo kláraði Sigvaldi Gunnarsson þetta með stæl. Svo borðuðum við lambasteik, svakalega flottur matur hjá þeim hjónum Sigga Dodda og Kristínu,“ segir Stefán ánægður.

Félagið var stofnað 29. september 1992 og hét upphaflega Félag eldri borgara á Sauðárkróki. Stefán segir mikið um að vera hjá félaginu en í því eru um 300 manns sem er rétt undir þriðjungshluta íbúa héraðsins sem náð hafa sextugsaldri. „Við erum ánægð með þátttökuna. Það er ekki alls staðar sem svo vel tekst til. Við reynum að bjóða upp á fjölbreytta dagsskrá í afþreyingu og reynum að hafa það þannig að sem flestir geti fundið sér eitthvað til hæfis,“ útskýrir Stefán. Auk staðbundinnar dagskrár innan héraðs segir Stefán félagið bjóða upp á tvær dagsferðir yfir sumarið. „Við fórum tvær rosa fínar ferðir í sumar, Annars vegar fórum við í Dalina og fylltum rútuna og seinna á sýninguna Manstu gamla daga. Það var vel sótt,“ segir Stefán og bætir við: „Það er rífandi gangur í félaginu svo það hlýtur að vera að stjórnin sé að gera eitthvað rétt,“ segir hann kíminn. Auk Stefáns skipa stjórn þau Ingunn Ásdís Sigurðardóttir, Ásta Pálína Ragnarsdóttir, Steinunn Hjartardóttir og Ásta Sigurbjörnsdóttir en Magnús Óskarsson, Stefanía Ósk Stefánsdóttir og Björn Björnsson sitja í varastjórn.

„Næst er það jólafundurinn sem alltaf hefur verið mikil hátíð en hann hefur ekki verið haldinn síðustu tvö ár vegna Covid takmarkana. Síðast vorum við í Ljósheimum og ég reikna með því að svo verði nú enda mjög þægilegt að vera þar,“ segir Stefán að endingu. Feykir óskar félagsfólki til hamingju með tímamótin.

/PF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir