Þrælfyndin sýning þrátt fyrir alvarleika boðskaparins | Hanna Bryndís Þórisdóttir skrifar
Undirrituð brá sér af bæ og tók stefnuna á Bifröst til að sjá uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks á Ávaxtakörfunni eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur með tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar í leikstjórn Sigurlaugar Vordísar Eysteinsdóttur.
Fyrir brottfluttan uppalinn Króksara eins og mig þá opnast ævintýraheimar bernskunar við að labba inn í salinn í Bifröst, minningar streyma fram og vellíðan tekur völdin og ekki var það öðruvísi í þetta sinn. Á senunni var stílhrein, litskrúðug og falleg leikmynd og skemmtileg barnatónlist barst í eyrun og svo gerðust töfranir.
Allir þessir fallegu íbúar ávaxtakörfunar birtust og svifu með okkur í þennan ljóta heim sem eineltisþolendur lifa í og salurinn grét með jarðaberinu Maju sem hin unga Ásta Ólöf Jónsdóttir túlkaði svo fallega.
Þarna hittum við svo karaktera sem við flest öll könnumst við, eins og perunar Poddi og Palla sem hafa enga skoðun á þessu og spila bara með og vilja bara ærslast og leika sér og gera grin að öllum sem á vegi þeirra verða. Lífsgleðin leikur við þau og þau vilja bara hafa gaman en því miður oft á kostnað annarra. Systkinin Kristey og Alex Konráðsbörn fara með hlutverk kátu peranna og gera það vel og smita gleðinni vel fram í salinn.
Þarna er rauða eplið Rannveig sem reynir að stjórnast í öllum og skipuleggja allt en hefur varla stjórn á sjálfu sér. Eplið er leikið af Fanneyju Rós Konráðsdóttur og nær hún vel að skila hlutverki þessa stressaða eplis til okkar og oft hálffinnur maður til með henni þegar hún reynir að fá hina íbúa körfunar með sér í lið og hafa allt flott, fínt og tilbúið en enginn hlustar.
Guli bananinn á ekki sjö dagana sæla við að reyna að halda uppi aga í körfunni fyrir verðandi konung og verður það til þess að hann er oft grimmur við félaga sína og þá sérstaklega græna bananann sem er ekki alveg að ná þessu og vill helst bara leika sér og vera vinur allra, nema kannski Maju. Þeir félagar eru leiknir af Inga Sigþóri Gunnnarssyni sem nýtur sín vel í hutverkinu og sá græni af Haraldi Má Rúnarssyni og kölluðu þeir fram ófáar hlátursrokurnar úr salnum.
Ávaxakarfan á auðvitað sína prímadonnu, hana Evu appelsínu, sem vil bara vera sæt og flottust og að allir dáist að sér og verður fyrir vikið pínu kjánaleg en hún sér það ekkert. Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir fer með hlutverk dívunnar Evu appelsínu og gerir það snilldarlega.
Svo er það hinn ógurlegi Immi ananas sem öllu vil stjórna með grimmd og frekjugangi og allir ávextirnir eru hræddir við hann og hlýða hvort sem þá langar eða ekki og upplifa eins og þeir eigi ekkert val.
En þá kemur gulrótin Gedda til sögunnar en hún lenti bara óvart í körfunni, enda er hún grænmeti og þá fór nú um hina íbúana og allir voru vondir við hana, meira að segja Maja jarðarber en samt með vondri samvisku.
Gedda er hugrökk og þorir að gera breytingar og nær að samneina og gera alla að vinum, líka Imma sem reyndist bara vera lítil í sér þegar upp var staðið. Eysteinn Ívar Guðbrandson leikur hinn hræðilega Imma og gerir það þannig að okkur þykir vænt um hann, þrátt fyrr allt.
Gedda gulrót er leikin af Flóru Rún Haraldsdóttur og nær hún svo vel að gera okkur hugrökk með sér og sýna okkur að með kærleika og húmor er hægt að laga ástandið.
Leikstjóranum Sigurlaugu Vordísi tekst svo sannarlega vel upp að raða í hlutverk og það skilar sér vel fram í sal hvað öllum virðist líða vel í sínu hlutverki. Búningadeild og sminnkur fá 20 af 10 mögulegum og mikil hugsun og vinna greinilega lögð í og útkoman stórfengleg. Tónlistin er svo falleg og leikararnir syngja öll eitthvað svo vel. Lýsingin er mjög flott og samspil ljósa,sviðsmyndar og búninga bara steinliggur og eins eru allar tímasetningar til fyrirmyndar. Það er aldrei dauð stund og börn niður í 2 til 3 ára sátu dolfallin. Mig langar líka að minnast á danspor og hreyfingar í lögunum, flott og einfalt og hannað af leikhópnum.
Frábær sýning með boðskap sem á alltaf erindi til okkar allra og þrælfyndin þrátt fyrir alvarleika boðskaparins. Leikfélag Sauðárkróks hefur alltaf lagt áherslu á að hafa börn og ungmenni í sínum röðum og þess vegna getur svona sýning lifnað við á fjölum Bifrastar og framtíðin er svo sannarlega björt.
Að lokum langar mig að taka það fram að þetta er einungis mín upplifun en ekki leikhús gagnrýni, aðrir eru færari í það. Takk fyrir stórskemmtilega sýningu LS og innilegar hamingjuóskir.
Verum góð við hvort annað!
Hanna Bryndís Þórisdóttir
Brottfluttur króksari og formaður Leikfélags Fjallabyggðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.