„Þetta var bara mjög léleg ákvörðun“
„Þetta var að mörgu leyti fín frammistaða heilt yfir. Sköpuðum fleiri færi en undanfarið og varnarleikurinn heilt yfir góður. Það vantaði bara upp á að ná að setja boltann yfir línuna en það voru sannarlega mörg tækifæri til þess í leiknum,“ sagði Donni þjálfari Stólastúlkna þegar Feykir spurði hann út í jafnteflisleikinn gegn liði Keflavíkur í Bestu deildinni í gær.
Leikurinn endaði 1-1 en lið Tindastóls var sannarlega óheppið að taka ekki öll stigin að þessu sinni, gerði fjögur mörk í leiknum en dómarinn leyfði aðeins eitt. Það var því eðlilegt að spyrja Donna hvort honum hafi fundist dómarinn gera rétt. „Það er erfitt fyrir mig að sjá þegar það var dæmt af vegna rangstöðu. En í síðasta markinu er mér sagt að okkar leikmenn hafi staðið fyrir markmanninum. Sem er auðvitað löglegt og leyfilegt og gerist í öllum hornum alls staðar. Ef ekki á sér stað leikbrot þá á ekki að dæma og þetta var bara mjög léleg ákvörðun.“
Úrslitakeppnin hefst um næstu helgi og fyrsti leikur gegn Keflavík hér heima; hvernig leggst það í þig? „Sá leikur leggst vel í mig og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera ennþá betur þá.“
Stjarnan datt niður í neðri hlutann, hentar það lið okkur betur en Þróttur? „Leikirnir við Stjörnuna hafa verið mjög jafnir og skemmtilegir. Það verður hörkuleikur og gaman að eiga við þær.“
Nærðu að styrkja liðið fyrir úrslitakeppnina? „Glugginn er lokaður og við treystum á þann hóp sem er. Við reynum áfram að styrkja þær sem fyrir eru og byggja áfram upp,“ segir Donni að lokum.
Lið Tindastóls og Keflavíkur mætast á Króknum í fyrstu umferðinni sem verður spiluð sunnudaginn 1. september kl. 16. Laugardaginn þar á eftir eiga Stólastúlkur síðan síðasta heimaleik sumarsins þegar Fylkir kemur í heimsókn og í lokaumferðinni spilar liðið við Stjörnun í Garðabænum þann 14. september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.