Tap gegn Aþenu í fyrsta leik
Stólastúlkur spiluðu sinn fyrsta leik í Bónus deildinni í gærkvöldi og mættu þá áköfu liði Aþenu í Austurbergi í Breiðholti. Heimaliðið reyndist sterkara að þessu sinni en leikurinn var ansi kaflaskiptur. Lokatölur voru 86-66 fyrir lið Aþenu.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, lið Tindastóls með frumkvæðið framan af en heimastúlkur voru þó yfir að leikhlutanum loknum, 19-18. Lið Aþenu byrjaði annan leikhluta betur og var fljótlega komið með um átta stiga forskot. Staðan í hálfleik var 40-30 og ljóst að gestirnir þurftu að koma sterkir til leiks í síðari hálfleik.
Það fór nú ekki alveg þannig því áköf pressa Aþenu hleypti liði Tindastóls varla fram yfir miðju fyrstu mínútur þriðja leikhluta. Hvað eftir annað stálu þær boltanum, jafnvel undir körfu Stólastúlkna, og gerðu ellefu fyrstu stig leikhlutans. Leiddu því 51-30 og lið Tindastóls virtist heillum horfið. Stelpurnar gerðu hins vegar vel og svaraði með 13-0 kafla. Staðan skyndilega orðin 51-43 og leikhlutinn ekki hálfnaður. Stólastúlkur héldu áfram að hamra járnið og þrír þristar í röð, tveir frá Klöru Sólveigu og einn frá Randi, komu liði Tindastóls yfir, 53-54.
Hvort bensínið kláraðist á þessum fína kafla skal ósagt látið en í kjölfar hans náði lið Aþenu 11-0 kafla og leiddi því með tíu stigum, 64-54, fyrir lokaleikhlutann þar sem þær reyndust sterkari og fögnuðu góðum sigri. Stugahæstar í liði Tindastóls var Randi með 26 stig, Coulibaly var með 14 og Edyta 11.
Við gáfumst ekki upp
Hlynur Freyr aðstoðarþjálfari segir þjálfarateymið hafa verið ánægt með baráttuna hjá sínu liði sem kom vængbrotið til leiks, aðeins níu stelpur á skýrslu og þar á meðal Eva Rún Dagsdóttir.
„Við vissum að þetta myndi verða erfitt án leikstjórnanda og margar að spila úr stöðu hjá okkur, en okkur fannst við ekki gefast upp og ná að halda áfram,“ sagði Hlynur.
Aðeins þrír erlendir leikmenn af fimm á skýrslu, hvað veldur? „Paula er að ná sér eftir að hafa dottið úr lið á puttanum og brákað hann, ennþá smá tími í hana, Melissa er heil en leyfismál að trufla okkur.“
Eva Rún, sem spilar með liði Selfoss í vetur, var mætt til leiks, hvað kom til? „Eva Rún mætti og hjálpaði okkur í gær og erum við rosalega þakklátir fyrir það. Við vorum ansi þunnskipaðar og þá er gott að eiga góða að sem til eru að hjálpa,“ sagði Hlynur Freyr sem tók þó fram að hún yrði ekki með liði Tindastóls í vetur.
Næstkomandi þriðjudag spila stelpurnar síðan fyrsta heimaleikinn en þá kemur geysiöflugt lið Stjörnunnar í heimsókn. Nú þurfa Stólastúlkur stuðning – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.