Sundurlaus samtöl Unu Torfa í Sauðárkrókskirkju

Una Torfa.
Una Torfa.

Ein af skærustu stjörnunum í íslensku tónlistarlífi síðustu misserin er Una Torfadóttir og hún er á einnar viku tónleikaferðalagi um landið sem hún kallar Sumartúr. Hún ætlar í kirkju á föstudagskvöldið, nánar tiltekið Sauðárkrókskirkju en þar ætlar hún að halda tónleika. Una gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Sundurlaus samtöl. Á túrnum ætlar Una að ferðast um með gítarleikaranum og kærasta sínum, Hafsteini Þráinssyni, og flytja plötuna í einföldum og fallegum búningi.

„Þessi plata er full af lögum sem ég hef átt lengi og spilað oft. Að vissu leyti er ég að reyna að heiðra nokkrar fortíðar útgáfur af sjálfri mér,” er haft eftir Unu á Tix.is en þar segir líka:

Una Torfadóttir er 23 ára söngkona, hljóðfæraleikari, lagahöfundur og alhliða listakona sem hefur einstakt lag á að tengja saman sannleika, hverdagsleika, ást og tónlist og koma því frá sér með þeim hætti að allir sem hlusta skilja og dragast inn í heim Unu og veltast þar um hlæjandi, hlustandi og grátandi.

„Draumurinn er að Sundurlaus samtöl fái að lifa góðu lífi og festa rætur. Ég opnaði dagbókina og hjartað og ég vona svo innilega að vangaveltur unglings-Unu og mínar og allra sem hjálpuðu mér og henni rati á rétta staði,” segir Una.

Tónleikarnir í Sauðárkrókskirkju hefjast kl. 21 á föstudagskvöldið og hægt er að næla í miða á Tix.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir