Stólarnir með vasklega framgöngu í VÍS bikarnum
Stólarnir skelltu Skagamönnum í gærkvöldi þegar liðin mættust í 32 liða úrslit VÍS bikarsins en leikið var á Akranesi fyrir framan um 300 áhorfendur. Heimamenn fóru vel af stað en undir lok fyrsta leikhluta hnikluðu gestirnir vöðvana og náðu undirtökunum í leiknum. Það bar kannski einna helst til tíðinda að Davis Geks fót með allt fjalasafnið sitt með sér í leikinn og gerði átta 3ja stiga körfur í ellefu tilraunum. Lokatölur leiksins voru 81-107 og Stólarnir komnir með miða í 16 liða úrslit bikarsins.
Sem fyrr segir byrjaði lið ÍA, sem leikur í 1. deildinni, leikinn vel og leiddi 19-12 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður og síðan 22-15 og mögulega farið að fara um Kidda Balda á pöllunum – jafnvel farinn að hugsa um að yfirgefa húsið. Svo jafnaði lið Tindastóls, 22-22, og leiddi 25-30 að loknum fyrsta leikhluta. Skagamenn voru ekkert á þeim buxunum að láta valta yfir sig og þeir héldu sér vel inni í leiknum, Stólarnir náðu áhlaupum og heimamenn svöruðu. Basile kom Stólunum níu stigum yfir, 34-43, en skömmu síðar munaði fjórum stigum. Staðan í hálfleik 46-52 og allt opið.
Enn bitu heimamenn frá sér í byrjun þriðja leikhluta en í stöðunni 53-55 náðu Stólarnir 12-0 kafla og eftir það var á brattann að sækja fyrir lið ÍA. Tólf stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, 61-73, en í fjórða leikhluta duttu Basileg og Geks í gírinn og leiðir skildu.
Allir tólf leikmenn Stólanna fengu að spreyta sig og skiluðu fínu framlagi. Stigahæstur var Geks með 26 stig og hænufeti að baki honum kom Basile með 25 stig. Grikkinn Giannsi skilaði 13 stigum og Arnar ellefu. Lið Tindastóls setti 20 þrista í 43 tilraunum á meðan heimamenn gerðu átta í 22 skotum og þar lá nú hundurinn grafinn að mestu í þessum leik.
Dregið verður í 16 liða úrslit á morgun, miðvikudag, og þá bæði hjá körlum og konum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.