Stólarnir drógust á móti Kára frá Akranesi

Dregið hefur verið í átta liða úrslit í Fótbolti.net bikarnum en eins og kunnugt er sló lið Tindastóls út Hlíðarendapilta í KH nú í vikunni og var eina liðið úr 4. deild sem komst áfram. Strákarnir eru því að spila upp fyrir sig í næstu umferð en auk Stólanna voru þrjú 2. deidar lið í pottinum og fjögur lið úr 3. deild. Stólarnir höfðu heppnina með sér og fengu heimaleik en andstæðingurinn reyndist hinsvegar topplið 3. deildar, Kári.

Káramenn koma frá Akranesi, eru eins konar b-lið ÍA, og hafa gert góða hluti í 3. deildinni. Þar eru þeir með 27 stig að loknum tólf leikjum.

Átta liða úrslitin fara fram að lokinni verslunarmannahelgi eða þann 6. ágúst og hefjast leikirnir kl. 18:00. Það er ljóst að Stólarnir, sem sitja í öðru sæti 4. deildar þurfa að eiga toppleik til að stríða liði Kára.

Næsti leikur Stólanna er hér heima á sunnudaginn kl. 16:00 en þá koma Hamarsmenn úr Hveragerði í heimsókn. Hamarsmenn eru sæti neðar en Stólarnir og því um mikilvægan leik að ræða í toppbaráttunni. Liðin gerðu 3-3 jafnteli í fyrri leiknum í sumar en þar dæmdi dómarinn fjórar vítaspyrnur, tvær á hvort lið, og mögulega allir dómarnir rangir. Allir á völlinn og áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir