Stjarnan hafði betur eftir sterkan endasprett
Áfram er dripplað á Króknum en í gærkvöldi mættust Tindastóll og Stjarnan í æfingaleik í Síkinu. Það voru gestirnir sem höfðu betur í leiknum þó fátt benti til þess fyrir lokafjórðunginn en það er ólíklegt að fjórði leikhluti endi á Greatest Hits DVD disk Stólanna ef hann verður einhverntímann gefinn út. Lokatölur voru 93-102.
Það er fyrrum þjálfari Stólanna, Baldur Þór, sem stýrir liði Stjörnunnar og hans menn fóru vel af stað í Síkinu, voru yfir 5-20 eftir fimm mínútur. Heimamenn komu til baka og staðan 24-28 þegar annar leikhluti hófst. Þá brá svo við að gestirnir skoruðu ekkert fyrstu fimm mínúturnar og Stólarnir náðu yfirhöndinni og leiddu í hálfleik, 49-41. Allt var í járnum í þriðja leikhluta sem endaði 26-26 og Stólarnir því enn átta stigum yfir fyrir lokaátökin. Þeir voru þremur stigum yfir þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá slokknaði á hreyflum heimamanna og Stólaþotan nauðlenti í Síkinu á meðan Stjörnumenn gengu á lagið – unnu síðustu fimm mínúturnar 18-6.
Heimamenn þurfa reyndar ekki að örvænta þar sem liðið var án Drungilas og Grikkjans Jóhannesar og þá missti Pétur af byrjuninni. Basile var stigahæstur með 19 stig, Arnar og Raggi voru með 17 og Geksarinn 16. Þá fann Nesi fjölina sem fólk var farið að halda að væri ekki lengur í Síkinu og setti 14 punkta. Hjá Garðbæingum var Ægir Þór með 27 stig en gestirnir mættu til leiks með aðeins einn erlendan leikmann.
Þá er bara að muna að úrslit í æfingaleikjum er ekki allt og óþarfi að fara á límingunum þó úrslitin séu ekki eins og í villtustu draumum – en við vitum þetta auðvitað, reynsluboltarnir sem við erum...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.