Stefnt að opnun nýja laugarsvæðisins um áramótin

Frá framkvæmdum við sundlaugina, korter yfir fimm 27. ágúst sl.   MYND: ÓAB
Frá framkvæmdum við sundlaugina, korter yfir fimm 27. ágúst sl. MYND: ÓAB

„Stefnt er að því að nýja laugarsvæðið verði opnað um næstu áramót,“ sagði Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, þegar Feykir forvitnaðist um gang framkvæmda við Sundlaug Sauðárkróks.

„Það sem unnið hefur verið að á þessu ári eru múrvinna, flísalagning og lagning raf- og pípulagna. Flísalagningu er lokið. Reiknað er með að pípulögnum ljúki í nóvember en raflögnum í desember. Næstu skref eru vinna við frágang á laugarbökkum, jarðvegsmön og öryggisgirðingu sunnan nýja sundlaugarsvæðisins, uppsetningu klórtanks, auk þess sem leik-tækjum verður komið fyrir í barnalaug.“

Er vitað hvað framkvæmdin kemur til með að kosta? „Á fjárhagsáætlun ársins 2024 var gert ráð fyrir 270 m.kr. í nýframkvæmdir við sundlaugina en tilboð í raf- og pípulagnir voru sem nemur 17 m.kr. lægri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir og því lækkar fjárfestingin niður í 253 m.kr.“

Er reiknað með að hafist verði handa við það sem upp á vantar strax í framhaldi af opnun nýja hlutans? „Útboðsgögn fyrir stóru rennibrautirnar og rennibrautarhús eru nær tilbúin og líklegt að sú framkvæmd verði unnin á árinu 2025, eða í beinu framhaldi af núverandi áföngum,“ segir Sigfús Ingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir