Sólskinið mælt í Skagafirði

Mælitækið komið upp og klárt í slaginn. Blönduhlíðarfjöllin í baksýn. MYND: MAGNÚS JÓNSSON
Mælitækið komið upp og klárt í slaginn. Blönduhlíðarfjöllin í baksýn. MYND: MAGNÚS JÓNSSON

Þann 12. júlí var settur upp svokallaður sólskinsstundamælir við Löngumýri í Skagafirði en það gerðu starfsmenn Veðurstofunnar. Mælirinn er settur upp að tilstuðlan Skagfirðingsins Magnúsar Jónssonar, veðurfræðings og fyrrum Veðurstofustjóra. „Ástæða þess að hér er settur upp mælir er kannski aðallega forvitni mín á veðri og veðurfari í Skagafirði,“ sagði Magnús í spjalli við Feyki.

Hann segir sólskinsmælingar gerðar á nokkrum stöðum á landinu en svona mælir er aðeins á fjórum stöðum. „Í ljósi þess að sólskin hefur ekki verið mælt áður íSkagafirði og raunar hvergi á Norðurlandi vestra leitaði ég eftir því við Veðurstofuna hvort slík gögn væru ekki áhugaverð og fékk þar jákvæð svör en stofnunin gæti ekki kostað slík mælitæki en bauðst hins vegar til að sjá um rekstur sem og úrvinnslu og miðlun slíkra gagna.“ Magnús segir að eftir þessi svör hafi hann haft sam-band við sveitarstjórn Skagafjarðar, Menningarsjóð KS og Búnaðarsamband Skaga-fjarðar um fjárhagslegan stuðning og fékk alls staðar góðar viðtökur.

Er Langamýri góður staður til að stinga niður svona mælitæki? „Langamýri er vel staðsett með tilliti til slíkra mælinga, miðsvæðis bæði til norðurs/suðurs og einng austur/vestur. Þá spillir ekki að Langamýri er þekktur menningarstaður og þar býr nú maður sem alinn er upp á veðurathugunarstað (Hrauni á Skaga). Gunnar Rögnvaldsson var því fús til að leggja þessum tækjum land og lið. Tækin eru alsjálfvirk og þurfa enga daglega umsjón,“ segir Magnús og bætir við að Langamýri sé í þjóðbraut og því auðvelt að sinna viðhaldi ef með þarf.

Er einhver munur á þeim veðurupplýsingum sem fást með sjálfvirku stöðvun-um, eru þær nákvæmari eða skila þær ekki jafn miklum upplýsingum? „Mannaðar stöðvar hafa að miklu leyti vikið fyrir sjálfvirkum veðurstöðvum sem flestar mæla vind, hita og loftþrýsing og sumar úrkomumagn/snjódýpt en fáar veita upplýsingar um aðra veðurþætti eins og úrkomu, skyggni, skýjafar o.fl. Myndavélar hafa víða verið settar upp og gera mikið gagn en sólskinsupplýsingar og mælingar á geislun er góð viðbót sem getur nýst ýmsum.“

Sumarið dálítið misleitt

Langamýri er þannig í sveit sett að þar geta bæði myndast miklir kulda- og hitapollar. Auk sólskinsmælis var settur upp hitamælir á Löngumýri og því kannski forvitnilegt að fylgjast með hitatölum þaðan. Þegar er farið að mæla og skrá gögn en starfsmenn Veðurstofunnar munu koma miðluninni á fast form í næsta mánuði eða um leið og sumarfríum lýkur.

Mun hlýna og birta til í Skagafirði í kjölfar upp-setningar sólskinsstundamælisins? „Skagafjörður er björt sveit og með þessum mælingum fæst á það tölu-legur mælikvarði.“

Hvernig hefur sumarið verið að mati veðurfræðingsins? „Sumarið hefur verið dálítið misleitt. Góðir kaflar en leiðinda hret bæði í byrjun júní og svo aftur í júlí þótt ekki hafi það verið jafnslæmt og það fyrrnefnda. Trausti Jónsson kollega minn taldi það líklega vera methafa í júníhretum, svo illskeytt var það,“ segir Magnús að lokum. /óab

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir