Sögusetur íslenska hestsins hefur opnað á ný

Húsnæði Sögusetursins á Hólum. MYND AF FB
Húsnæði Sögusetursins á Hólum. MYND AF FB

Sögusetur íslenska hestsins, sem staðsett er á Hólum í Hjaltadal, opnaði dyr sínar fyrir gestum um miðjan júní síðastliðinn. Setrinu var lokað fyrir um tveimur árum og ráðist í stefnumótunarstarf. Hægt er að skoða sýningar safnsins fram í miðjan ágúst en opnunartími þess er frá kl. 11-17 alla daga.

Í kynningu á Facebook-síðu Sögusetursins segir að sjá megi þar fastasýninguna Íslenski hesturinn, þar sem í boði er lifandi leiðsögn. „Sýningin miðlar með lifandi og fjölbreyttum hætti samspili hests og þjóðar. Einnig er þar að finna sýninguna Uppruni kostanna, auk þess sem Sleipnisbikarinn er til sýnis á Setrinu.

Það er upplagt að leggja leið sína heim að Hólum í Hjaltadal í sumarfríinu, koma á sýningar Söguseturs íslenska hestsins, fá sér eitthvað gott í gogginn á veitingastaðnum Kaffi Hólar - Ferðaþjónustan á Hólum og kíkja í Hólakirkju og jafnvel fá sér bjór á Bjórsetri Íslands. Hér er gott tjaldsvæði í stórkostlegu umhverfi og einnig er hægt að leigja sér smáhýsi, svo er líka bara hægt að koma við,“ segir í kynningunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir