Skráning hafin á Vatnsdalshólahlaupin sem fara fram 16.-18. ágúst

Hér má sjá hlaupaleiðina í Gljúfurárhlaupi - 25 km og heildarhækkun 298 m
Hér má sjá hlaupaleiðina í Gljúfurárhlaupi - 25 km og heildarhækkun 298 m

Vatnsdalshólahlaupin eru hluti af dagskrá Vatnsdæluhátíðar sem fer fram helgina 16.-18. ágúst í Húnabyggð. Á þessari hátíð verða dagskrárliðir víða í Vatnsdal, Þingi og á Blönduósi en hlaup og skemmtidagskrá verður í Vatnsdalshólunum, einkum í Þórdísarlundi sem er trjálundur Húnvetningafélagsins í Reykjavík og er í jaðri Vatnsdalshóla.

Eftir hlaup verður hlaupurum og áhorfendum boðið upp á grillað lambakjöt í Þórdísarlundi sem er í göngufæri við marklínu. Sundlaugin á Blönduósi verður opin til kl. 20:00 og er aðgangseyrir innifalinn í skráningargjaldi í Gljúfurárhlaupi og Ranhólahlaupi. Bæði hlaupin eru með tímamælingu og verður þeim startað kl. 11:00. Almenn brautargæsla verður auk þess sem björgunarsveit og heilbrigðisstarfsfólk verður á svæðinu. Skráning fer fram hér og þar er einnig hægt að sjá hlaupaleiðirnar. 

Gljúfurárhlaup - 25 km og heildarhækkun 298 m

Gljúfurárhlaupið er haldið í fyrsta skipti nú með tímatöku en í fyrra var það haldið sem tilraunaverkefni í undirbúningi fyrir þetta hlaup.

Rásmark og mark er við bæinn Vatnsdalshóla þar sem nóg pláss verður fyrir farartæki hlaupara. Þar er hægt að komast á salerni. Hlaupið er um gönguslóða, reiðleiðir og vegslóða. Á þeim hluta leiðar sem ekki er á vel afmörkuðum slóða verður leiðin vel merkt með flöggum.

Fyrst liggur leið í gegnum Þórdísarlund sem er minnisvarði um fyrsta fædda Húnvetninginn, Þórdísi dóttur Ingimundar gamla, þá liggur leiðin þvert í gegnum Vatnsdalshólana, út að Sveinsstaðarétt, þar sem farið er undir þjóðveginn á reiðvegi sem liggur alla leið að Þrístöpum þar sem síðasta aftaka á Íslandi fór fram árið 1830. Reiðleiðinni er fylgt alla leið niður að ósum Gljúfurár þar sem hún fellur í Hópið. Frá Hópinu liggur leiðin upp með Gljúfurá á veiðimannaslóðum þar sem líta má fallegar flúðir og lítil vatnsföll. Meðal annars er hlaupið undir þjóðveg við brúnna yfir Gljúfurá og alla leið upp fyrir bæinn Uppsali þar sem hæsta punkti leiðar er náð. Þaðan er leiðin öll niður í móti með lokaspretti á fyrsta akvegi sem lagður var norður í land fyrir meira en 100 árum. Hér má á nokkrum stöðum sjá fallegar hleðslur sem vörðu veginn fyrir hruni úr hólunum sem kenndir eru við Vatnsdalinn og þekkjast sem einn af þrem kennileitum í íslensku landslagi sem eru óteljandi.

Þar sem ekki eru miklar brekkur á leiðinni er hún frekar ljúf og tækifæri til að njóta útsýnis.

Drykkjarstöðvar

  • 5 km vatn
  • 11 km bananar, vatn og íþróttadrykkur
  • 15 km vatn
  • 20 km íþróttadrykkur og vatn

Ranhólahlaup - 11 km og heildarhækkun 107 m

Fyrir þá sem vilja taka styttra hlaup verður boðið upp á 11 km langan hring í Vatnsdalshólunum. Rásmark og mark er við bæinn Vatnsdalshóla eins og Gljúfurárhlaupið. Leiðin liggur um Vatnsdalshóla og fram hjá rústum eyðibýlisins Ranhólakot. Drykkjarstöð verður eftir 5 km og í marki.

Rathlaup

Að þessu sinni verður boðið upp á æfingabraut í rathlaupi og stefnt á að halda keppni í rathlaupi í ágúst 2025. Í boði verða þrjár mismunandi brautir:

  • 1-2 km létt leið
  • 2-3 km miðlungs erfið
  • 4-5 km rúmlega miðlungs eða erfið

Nánar má lesa um rathlaup á heimasíðu Rathlaupafélagsins Heklu: https://rathlaup.is/

Krakkahlaup

Krakkahlaup verður fyrir upprennandi náttúruhlaupara í kringum Skúlahól ekki er um keppni að ræða heldur frekar skemmtiskokk fyrir þau allra yngstu. Eftir hlaupið geta þau talið tröppurnar upp á hólinn og horft yfir Flóðið.

Afhending gagna

Afhending gagna fer fram í:

  • Versluninni Hlaupár, Fákafeni 11 Reykjavík frá 6.-15. ágúst á milli kl. 11:00-18:00
  • Við rásmark 17. ágúst (til kl. 10:30)

Styrktaraðilar

Sveitarfélagið Húnabyggð heldur hlaupið með styrkt frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og fyrirtækinu Ísgel ehf. sem framleiðir kæligelið góða sem allir þurfa að eiga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir