Skemmtiferðaskip heimsótti Drangey

Ekki gátu Drangeyjargestir verið mikið heppnari með veðrið í dag. MYNDIR: HELGI RAFN
Ekki gátu Drangeyjargestir verið mikið heppnari með veðrið í dag. MYNDIR: HELGI RAFN

Því er misskipt mannanna láni. Fyrstu vikuna í júlí kom skemmtiferðaskipið Azamara Quest í Skagafjörðinn, fékk fínar móttökur en gestir fengu engu að síður norðanhryssing og þokudrullu. Í dag kom til hafnar á Sauðárkróki National Geographic Explorer í rjómablíðu, heiðskýru, hlýju og stilltu veðri. Fyrst staldraði skipið þó við í Drangey og nokkur hópur farþegar fór upp í eyju í fylgd þeirra hjá Drangeyjarferðum.

„Já, veðrið var frábært.. Þetta tókst allt mjög vel að taka svona á móti þeim í Drangey. Það fóru 50 manns í Drangey en hinir sem treystu sér ekki í gönguna upp fóru í siglingu í kringum eyjuna á gúmmíbátum frá skipinu,“ tjáði talsmaður Drangeyjarferða Feyki þegar forvitnast var um heimsóknina.

NGE var mætt við Drangey um sex í morgun og kom til hafnar á Króknum í hádeginu þar sem farþegar stigu ýmist upp í rútur eða röltu í bæinn þar sem eitt og annað var í boði.

Myndirnar tók Helgi Rafn Viggósson í morgun pg gaf Feyki góðfúslegt leyfi til að birta þær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir