Skagafjörður auglýsir eftir rekstraraðila fyrir Miðgarð
Skagafjörður auglýsir eftir rekstraraðila fyrir Menningarhúsið Miðgarð sem er staðsett í fallegu Varmahlíð. Í tilkynningu á vef sveitarfélasins segir að rekstraraðila Menningarhússins Miðgarðs sé ætlað að sjá um daglega starfssemi í húsinu, veitingasölu, útleigu, ræstingar og minniháttar viðhald.
Meginhlutverk Menningarhússins Miðgarðs er að vera vettvangur tónlistar. Lögð er áhersla á fjölbreytta og metnaðarfulla tónlistardagskrá. Jafnframt er húsið æfingaraðstaða fyrir tónlistariðkendur í Skagafirði. Í Menningarhúsinu Miðgarði er Stefáns Íslandi sérstaklega minnst með sýningu og munum er tengjast ævistarfi hans. Menningarhúsið Miðgarður er jafnframt markaðssett sem aðstaða fyrir ráðstefnur, fundi, skemmtanir og ýmsa aðra menningarviðburði, svo fremi sem þeir falla að nýtingarstefnu eigenda hússins og starfssemin sé í fullu samræmi við gildandi lög og reglur um skemmtanahald.
Rekstraraðili og eigendur munu vinna eftir sameiginlegri stefnumótun um starfssemi Menningarhússins Miðgarðs, þar sem markmið eru sett um dagskrá, markhópa og markaðssetningu hússins. Í samningi aðila verður kveðið á um gagnkvæm réttindi og skyldur.
Umsækjendur skulu skila upplýsingum um reynslu sína og þekkingu sem nýst gæti við rekstur menningarhúss sem og þeim hugmyndum sem þeir hafa um framtíðarrekstur Menningarhússins Miðgarðs.
Umsóknir skal senda til sveitarfélagsins Skagafjarðar, Ráðhúsi, 550 Sauðárkróki, merkt Miðgarður, eða í tölvupósti á netfangið sigfusolafur@skagafjordur.is, fyrir 23. september 2024.
Nánari upplýsingar veitir Sigfús Ólafur Guðmundsson, verkefnastjóri atvinnu-, menningar og kynningarmála hjá Skagafirði í síma 455 6170 eða í tölvupósti á sigfusolafur@skagafjordur.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.