Sjálfstæðisflokkur endaði stærstur í Norðvesturkjördæmi
Það var reiknað með spennandi kosningu í Norðvesturkjördæmi og glöggir spámenn og kannanir gerðu ráð fyrir að sex flokkar skiptu með sér þeim sex þingsætum sem í boði voru; Framsókn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins, Miðflokkur og Samfylking. Síðan yrði happdrætti hvar uppbótarþingmaðurinn endaði. Það fór svo að hann endaði hjá Flokki fólksins sem fékk því tvo þingmenn í kjördæminu.
Fyrsti þingmaður kjördæmisins er Ólafur Adolfsson, varnarjaxlinn ólseigi af Skaganum sem gerði reyndar einnig garðinn frægan með knattspyrnu- og körfuboltaliði Tindastóls í kringum 1990. Óli er vinsæll á Skaganum og hefur að líkindum fiskað vel á því svæði í það minnsta. Sjálfstæðiflokknum var ekki spáð mestu fylgi í kjördæminu daginn fyrir kjördag en bætti við aukagír á lokametrunum og fékk 18% atkvæða. Miðflokkurinn kom best út í Gallup-könnun en endaði með 14,8% % en spáin hljóðaði upp á 18,6%. Gunnar Bragi komst því ekki í gamla sætið sitt á þingi en Ingibjörg Davíðsdóttir er nýr þingmaður Miðflokksins.
Flokkur fólksins varð annar stærsti flokkur kjördæmisiins, endaði með 16,7% og Eyjólfur Ármanns og Lilja Rafney fengu bæði þingsæti, Lilja sem uppbótarþingmaður.Samfylking fékk 15,9% og Viðreisn 12.6% og einn þingmann hvor flokkur. Það eru Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri á Ísafirði og María Rut Kristinsdóttir aðstoðarkona Þorgerðar Katrínar.
Framsókn náði að rétta úr kútnum síðustu daga kosningabaráttunnar. Flokkurinn hafði þrjá þingmenn síðast og þar með talinn uppbótarþingmanninn en verður nú að sætta sig við einn þingmann, Króksarann Stefán Vagn Stefánsson, sem er þá í raun eini þingmaðurinn með búsetu á Norðurlandi vestra. Framsókn endaði með 13,3% atkvæða.
Miðað við spá Gallup hefðu minnni flokkarnir átt að fá betri útkomu en raunin varð. Kannski hafa óráðnir kjósendur ákveðið að kjósa taktískt – jújú – og talið atkvæði sínu betur varið hjá flokkum sem ættu vísa þingmenn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.