Sigurður Bjarni formaður nýrrar stjórnar Náttúrustofu Norðurlands vestra

MYND: ÓAB
MYND: ÓAB

Ný stjórn Náttúrustofu Norðurlands vestra, sem skipuð var í kjölfar veitarstjórnarkosninganna í vor, hélt sinn fyrsta fund í byrjun október. Stjórnin er skipuð fulltrúum þeirra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem aðild eiga að Náttúrustofunni en það eru Skagafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd og Húnaþing Vestra.

Sigurður Bjarni Rafnsson

Í tilkynningu frá NNv kemur fram að í stjórn sitji fjórir fulltrúar, tveir frá Skagafirði, Sigurður Bjarni Rafnsson og Jóhanna Ey Harðardóttir; Halldór Gunnar Ólafsson, Skagaströnd og Elín Lilja Gunnarsdóttir úr Húnaþing vestra. Formaður stjórnar var kjörinn Sigurður Bjarni.

Á fundinum kynnti forstöðumaður, Starri Heiðmarsson, verkefni sumarsins fyrir stjórn:
„Náttúrustofan leggur áherslu á rannsóknir á náttúrufari á Norðurlandi vestra og hefur sinnt umfangsmiklum fuglatalningum, bæði á eigin vegum og í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í sumar hefur náttúrustofan sömuleiðis sinnt vöktun skv. samningi við Náttúrufræðistofnun þar sem endurgreind voru vistgerðasnið sem sett voru út árin 1999-2013. Sömuleiðis er fylgst með þekktum steingervingastöðum á svæðinu. Þá hefur forstöðumaður fylgst með sjaldgæfum fléttum á suðausturlandi auk þess sem hann fylgist með landnámi fléttna í hinni tæplega 60 ára gömlu Surtsey. Þá er náttúrustofan í samstarfi við BioPol á Skagaströnd að vakta örplast í sjó auk þess að taka þátt í alþjóðlegu verkefni í samstarfi við Hólaskóla og Selasetrið á Hvammstanga.

Framtíðarverkefni náttúrustofunnar komu einnig til umræðu. Votlendi svæðisins hýsir mikilvæg vistkerfi og óþekktan líffræðilegan fjölbreytileika. Sérstaklega þarf að fylgjast með votlendissvæðum á hálendinu sem geyma sífrera eins og Orravatnsrústir eða Guðlaugstungur en bæði svæðin voru heimsótt í sumar í tengslum við vöktun vistgerða.“

Fram kemur í tilkynningunni að rekstur náttúrustofunnar sé í jafnvægi og samþykkti stjórn þá tillögu forstöðumanns að halda opinn ársfund NNv snemma næsta ár þar sem íbúum svæðisins gefst tækifæri á að kynnast helstu verkefnum og niðurstöðum ársins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir