Rolluhlaupin lögðu grunninn
Hörður Hlífarsson er 24 ára hlaupagarpur frá Víðiholti í Skagafirði. Í júní síðastliðnum lauk hann Bs í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og hefur verið að vinna eftir útskrift en Hörður tók þátt í sínu þriðja Bakgarðshlaupi á dögunum og gerði sér lítið fyrir og hljóp 120,7 km eða 18 hringi. Feykir hafði samband við Hörð og forvitnaðist hjá honum um hlaupaferilinn sem hófst þegar hann hljóp sitt fyrsta utanvegahlaup – fyrir utan að hlaupa á eftir rollum – þegar hann fór 18 km. í Súlur Vertical árið 2021.
Hörður var ekki að hlaupa Bakgarðinn í fyrsta sinn heldur þriðja nú í ár og hefur hann bætt sig rosalega á þessum þrem hlaupum. „Fyrsta skiptið var í Öskjuhlíð 2022 þar sem ég fór 8 hringi (53,6 km) og vissi þá ekkert hvað ég væri að fara út í. Síðan skellti ég mér í Heiðmörk í fyrra, þar fór ég 15 hringi (100,5 km). Eftir það hlaup hugsaði ég að ég myndi sko aldrei hlaupa þetta aftur. Það fór nú ekki svo þar sem ég tók aftur þátt núna 21. september í Heiðmörk og fór 18 hringi (120,7 km).“
Settir þú þér eitthvað markmið fyrir hlaupið? „Það er náttúrulega alltaf markmiðið að hafa gaman að þessu, þó svo fólk eigi kanski erfitt með að trúa því að það sé eitthvað gaman við þetta. Mitt markmið fyrir þetta hlaup var að bæta mig frá því í fyrra og því var markmiðið að hlaupa 16 hringi.“
Hvernig leið þér í hlaupinu? „Mér leið alls konar. Fyrstu hringina þá var maður bara frekar ferskur en svo þegar leið á fór þetta að verða nokkuð erfitt. Það sem hjálpar manni mikið í gegnum svona hlaup er að það er alltaf mikil stemning í kringum hlaupið, fullt af fólki að hvetja og taka á móti manni þegar maður kemur í mark.Síðustu hringirnir voru vel erfiðir og maður þurfti að berjast meira við hausinn heldur en líkamann til að halda áfram.“
Langaði þig aldrei að hætta? „Í 17. hring var ég alveg staðráðinn í því að þetta væri minn síðasti hringur og var ég alveg búinn að ákveða að hætta eftir þann hring. Svo kem ég í mark og Sólveig Birna tekur á móti mér sem var að aðstoða mig í hlaupinu þar sem maður má hafa aðstoðarmann eftir 9. hring. Sólveig tók ekki annað í mál en að ég myndi allavega byrja á 18. hring sem ég og gerði og kláraði hann. Ég þakka Sólveigu kærlega fyrir alla hjálpina, peppið og að koma mér einn hring í viðbót.“
Áttu eftir að gera þetta aftur? „Ég stefni á að skella mér einhvern tímann aftur já, Daði bróðir vill endilega skella sér og ætli ég verði ekki að fara með honum.“
Hvernig er líkaminn dagana á eftir? „Maður er nokkra daga að jafna sig eftir svona hlaup og lappirnar eru vel stífar eftir þetta.“
Feykir þakkar Herði fyrir spjallið og óskar honum innilega til hamingju með árangurinn í hlaupinu. Það verður spennandi að fylgjast með þegar þeir bræður fara saman. Viðtalið var birt í 37. tbl.Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.