Ráðamenn vilja flýta rannsóknum á Fljótagöngum
Ástandið á veginum um Almenninga á Siglufjarðarvegi og aðkomu að Strákagöngum úr vestri hefur ekki farið framhjá neinum. Bjarni Benediktsson skoðaði aðstæður fyrir helgi og viðraði þá skoðun sína að flýta þyrfti rannsóknum við Fljótagöng. Í Morgunblaðinu í gær tók Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra undir orð Bjarna og bætti við að þarna væri yfirvofandi hætta og við það verði ekki unað.
„Ég er sammála forsætisráðherra í því að ráðast í Fljótagöng. Vegir sem eru á fleygiferð eins og þessir kalla á hraðari hendur hjá stjórnvöldum og við þurfum að bregðast hratt við, við undirbúning þessarar framkvæmdar og tryggja fjármagn og ég mun sjá til þess að það verði gert hratt og vel,“ hefur Morgunblaðið eftir Svandísi og má á henni skilja að framkvæmdin verði sett framar í forgangsröð.
Áður hafði Feykir greint frá því að Bjarni Jónsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, boðað Vegagerðina og fulltrúa Fjallabyggðar og Skagafjarðar til fundar hjá nefndinni í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.