Rabb-a-babb 229: Helga Björg kírópraktor

Helga Björk starfar sem kírópraktor. AÐSEND MYND
Helga Björk starfar sem kírópraktor. AÐSEND MYND

Helga Björg Þórólfsdóttir er fædd árið 1989 dóttir þeirra heiðurshjóna Þórólfs Péturssonar frá Hjaltastöðum og Önnu Jóhannesdóttur frá Sólvöllum. Á Hjaltastöðum sleit Helga barnsskónum og nam svo líffræði áður en hún hélt til Banda-ríkjanna að læra kírópraktík. Við það hefur hún starfað síðan hún kom aftur til Íslands árið 2016.

Helga er trúlofuð Pétri Helga Einarssyni, doktorsnema, og eiga þau einn tveggja ára Þórólf. Helga býr í Kópavogi og í Skagafirð og var að taka við sem eigandi Kírópraktorstofu Íslands svo það er svona ýmislegt sem hún þarf að fara að koma sér inn í á næstunni.

Hvernig nemandi varstu? -Það fer svona kannski eftir skólastigum en ég var held ég metnaðarfullur og vandvirkur nemandi í grunnskóla. Það háði mér reyndar alltaf í námi að ég er ekki sterk í lestri.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? -Ætli það sér ekki hvað það var mikil bongóblíða. Svo góð var spáin að hann faðir minn skellti í sólpall daginn áður en bygging hans hafði setið eitthvað á hakanum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? -Ætluðu ekki allir krakkar í sveit að verða dýralæknar?

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? -Ég átti sjúkraflutningabangsa sem mér var gefinn í sjúkrabíl frá Króknum til Akureyrar. Hann hét Garmur og var mikið uppáhald.

Hvert er uppáhalds leikfangið þitt í dag? -Hjólið mitt, ef hjól eru ennþá flokkuð sem leikföng hjá fullorðnum.

Besti ilmurinn? -Nýslegið gras

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? -Það var í lokahófi Rugbyfélags Reykjavíkur árið 2016. Ég talaði nú ekkert við hann þar samt held ég.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? -Það gæti hafa verið Metallica og svo allt yfir í Goo Goo Dolls.

Hvernig slakarðu á? -Það er ákveðin slökun að keyra á milli landshluta og hlusta á tónlist eða hlaðvarp.

Hvaða seríu varstu síðast að hámhorfa eða mælir með? -True Detective

Hvað bíómynd var í mestu uppáhaldi þegar þú varst unglingur? -Almost Famous.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? -Ég hlýt að fá á baukinn ef ég segi ekki Jón Arnar Magnússon.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? -Baka.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? -Ég er rosaleg í pizzunum.

Hættulegasta helgarnammið? -Súkkulaði er hættulegt alla daga vikunnar.

Hvernig er eggið best? -Hrært eða hleypt.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? -Ég get átt verulega erfitt með að halda einbeitingu.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? -Hroki og væl.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? -Ég segi mjög oft „Eins manns dauði er annars brauð” en það er nú yfirleitt í gríni.

Hver er elsta minningin sem þú átt? -Ég á einhverjar eldgamlar minningar um að hafa verið að skottast í fjósinu á meðan það var verið að mjólka.

Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? -Ég myndi vilja vakna sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, mæta snemma í vinnuna og skrúfa aðeins niður í stýrivöxtunum.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? -Ég get nú varla svarað þessu því ég er afskaplega lítil lestrarmenneskja. Mér finnst allavega allt sem ég hef lesið eftir Ólafur Jóhann Ólafsson gott.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? -Ég blóta alltof mikið.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í drauma-kvöldverð? -Jóni Gnarr, Sigurjóni Kjartanssyni og Helgu Brögu. Ég myndi svo sannfæra þau um að framleiða nýja seríu af Fóstbræðrum.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? -Að öllum sögulegum viðburðum ólöstuðum þá hugsa ég reglulega um hvað það væri ljúft að það væri allt í einu sumardagur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Þá var fyrir mig persónulega mjög þægilegt að vera til.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? -Brakarameistarinn.

Framlenging: 

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... til Ástralíu og myndi svo flakka á milli Kyrrahafseyjanna.

Bucket list spurningin: Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Fara á HM í rugby, keyra Formúlu 1 bíl og heimsækja frjálsa Palestínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir