Öruggur sigur á Hafnfirðingum í gærkvöldi
Tindastóll tók á móti Haukum í gærkvöldi í Bónus deild karla. Hafnfirðingar höfðu farið illa af stað í deildinni og tapað fyrstu tveimur leikjunum sannfærandi á meðan Stólarnir leifðu sér að tapa gegn KR heima í fyrstu umferð en lögðu ÍR að velli í annarri umferð. Haukarnir reyndust lítil fyrirstaða í gær og þó gestirnir hafi hangið inni í leiknum langt fram í þriðja leikhluta var leikurinn aldrei spennandi og heimamenn fögnuðu góðum tveimur stigum. Lokatölur 106-78.
Lið Tindastóls hafði farið rólega af stað í fyrstu tveimur leikjunum og í gær ætluðu menn greinilega að hrista af sér sliðruorðið og taka þetta með trukki. Haukarnir voru engu að síður yfir 2-4 en síðan náðu heimamenn yfirhöndinni. Þeir leiddu 11-4 og 19-12 en inn á milli náðu gestirnir, með Everage Lee Richardson í stuði, smá áhlaupum. Það munaði tíu stigum að loknum fyrsta leikhluta, 32-22. Stólarnir bættu örlítið í í öðrum leikhluta og munurinn um hann miðjan orðin 16-20 stig en gestirnir klóruðu aðeins í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum 60-46.
Það væri því synd að segja að varnarleikur liðanna hafi verið til fyrirmyndar en heldur minna var skorað í síðari hálfleik. Um miðjan þriðja leikhluta höfðu Stólarnir bætt tíu stigum á töfluna en Haukarnir fimm. Þegar tæp mínúta var eftir af leikhlutanum minnkuðu gestirnir muninn í 14 stig en þristar frá Pétri og Arnari slökktu í þessum vonarneista Hauka og staðan 83-63 fyrir lokakaflann. Stólarnir voru snöggir að koma muninum í þrjátíu stig í fjórða leikhluta og yngri leikmenn fengu að stíga dansinn á lokakaflanum. Axel Arnarsson og Sigurður Stefán Jónsson gerðu sínar fyrstu körfur í efstu deild í gær á lokakafla leiksins og settu þar með punktinn aftan við góðan sigur Tindastóls.
Leikmenn Tindastóls sýndu oft laglega takta í gær en hvað það segir um liðið er ekki gott að segja þar sem andstæðingurinn var ekki upp á marga fiska. Stigaskorið dreifðist vel á leikmannahópinn en öflugastur í gær var Sadio Doucoure sem gerði 29 stig og tók tíu fráköst. Þá var Basile með 19 stig, Arnar 15, Giannis 10 og Pétur 9. Hjá gestunum var Everage stigahæstur með 26 stig en megnið af þeim gerði hann í fyrri hálfleik.
Í síðustu tveimur leikjum hafa Stólarnir spilað við tvö slökustu lið deildarinnar þannig að nú fara þeir að lenda í harðari rimmum. Næst á dagskrá er heimsókn í Kópavoginn þar sem taplaust lið Grindavíkur bíður þeirra með Deandre Kane væntanlega í broddi fylkingar – nema hálfleiksæfingar gærkvöldsins dragi dilk á eftir sér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.