Óbreytt staða á botni Bestu deildarinnar
Lið Tindastóls og Keflavíkur skildu jöfn, 1-1, á Sauðárkróksvelli í dag í átjándu og síðustu umferð Bestu deildarinnar. Úrslitin þýða að lið Tindastóls er í áttunda sæti með 13 stig nú þegar úrslitakeppnin hefst en Keflvík í tíunda og neðsta sæti með 10 stig eða jafnmörg og Fylkir. Liðin mætast að nýju í fyrstu umferð úrslitakeppni neðri liðanna sem hefst nk. sunnudag.
Það var stillt veður en blautt og kalt á vellinum. Ekki virtist það slá gestina út af laginu sem náðu forystunni strax á 9. mínútu. Þá náðu Keflvíkingar snarpri sókn þar sem vörn Tindastóls var ekki með á nótunum. Miller lagði þá boltann inn á teig á Marínu Rún, María Dögg var þá skyndilega að dekka tvo leikmenn og skildi Marínu eftir sem snéri með boltann og dúndraði í fjærhornið hjá Monicu. Lið Tindastóls gerði sitt besta til að jafna metin fyrir hlé en Hugrún, Jordyn og Birgitta náðu ekki að nýta færin sem gáfust. Skömmu fyrir hlé skoraði svo Hugrún en markið dæmt af þar sem hún fékk boltann í hendina áður en hún setti hann í markið. Staðan 0-1 í hálfleik.
Gestirnir byrjuðu betur í síðari hálfleik en Stólarnir jöfnuðu metin í fyrstu sókn sinni. Jordyn var þá í klafsi við vítateiginn, boltinn barst til vinstri og rétt utan vítateigs náði Elísa Bríet frábæru ristarskoti sem söng óverjandi í netinu hjá Veru Varis. Lið Tindastóls hafði undirtökin eftir þetta en bæði lið hefðu geta bætt við mörkum. Jordyn skoraði eftir rúmlega klukkutíma leik en markið dæmt af vegna rangstæðu sem virtist vera tæp. Þegar venjulegur leiktíma var að renna út komu Stólastúlkur boltanum í markið í fjórða sinn í leiknum en dómarinn flautaði á brot í teignum og dæmdi þannig þriðja markið af liði Tindastóls.
Liðin skiptu því stigunum á milli sín. Það voru heldur skárri úrslit fyrir Tindastól sem fara þá inn í úrslitakeppnina með 13 stig, þremur stigum meira en Keflavík og Fylkir. Fjórða liðið í neðri hluta úrslitakeppninnar er síðan Stjarnan en Garðbæingar töpuðu í dag fyrir Þrótti Reykjavík og höfðu þar með sætaskipti í deildinni.
Það má reikna með spennandi úrslitakeppni en klárlega þarf lið Tindastóls að finna sigurgírinn fyrr en síðar þar sem liðið náði ekki að vinna einn einasta leik í síðari umferð Bestu deildarinnar, gerði þrjú jafntefli og tapaði sex leikjum. Það er hæpið að áframhald á slíkri frammistöðu dugi til að halda sér í deildinni. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.