Lýsa yfir óánægju með aðgerðir Skagafjarðar í leikskólanum Ársölum
Í bréfi til sveitarstjóra, fræðslusviðs og leikskólastjóra sveitarfélagsins Skagafjarðar lýsa Inga Jóna Sveinsdóttir og Hafdís Einarsdóttir, foreldrar, starfandi kennarar og fulltrúar í foreldraráði Ársala, yfir óánægju með að sveitarfélagið hafi skipulagt opnun leikskólans Ársala í dag þrátt fyrir verkfallsaðgerðir KÍ. „Við teljum ekki réttlætanlegt að hafa deildir opnar, með skertri starfsemi, þegar deildarstjóra vantar á deildir þar sem hann stýrir faglegu starfi hverrar deildar fyrir sig,“ segir m.a. í bréfinu.
Bréfið er á þessa leið:
„Undirritaðar eru foreldrar, starfandi kennarar og fulltrúar í foreldraráði Ársala.
Við viljum með þessu erindi lýsa yfir óánægju okkar yfir því að sveitarfélagið Skagafjörður hafi farið í að skipuleggja opnun leikskólans Ársala í dag þrátt fyrir verkfallsaðgerðir KÍ. Við teljum ekki réttlætanlegt að hafa deildir opnar, með skertri starfsemi, þegar deildarstjóra vantar á deildir þar sem hann stýrir faglegu starfi hverrar deildar fyrir sig. Slík framkvæmd af hálfu sveitarfélagsins felur í sér skýr skilaboð um að fagmenntun starfsfólks sé óþörf og felur þar af leiðandi vanvirðingu í sér gagnvart námi kennara og mikilvægi þeirra.
Undirritaðar leggja þó áherslu á að ófaglært starfsfólk, eða starfsfólk með aðra menntun en kennaramenntun, er mikilvægt í starfsemi leikskólans og ekki er gert lítið úr hæfni þeirra til að starfa með börnunum með þessu erindi. Þvert á móti. Hins vegar eru kennarar, sem starfa undir merkjum KÍ, nauðsynlegir fyrir starf leikskóla enda bundið í lög að sveitarfélög skuli eftir fremsta megni ráða fagmenntaða leikskólakennara.
Varðandi reglur um verkföll er það ljóst af hálfu KÍ að framkvæmd sveitarfélagsins er skýrt verkfallsbrot og að okkar mati með öllu ólíðandi að sveitarfélagið standi fyrir ofangreindum aðgerðum. Slíkar aðgerðir eru þó líklega ætlaðar til að aðstoða foreldra og börn og létta undir þeim enda erfiður tími framundan. Að okkar mati er þó búin til enn meiri óvissa fyrir börn og foreldra, fyrir starfsfólk leikskólans og aðra í samfélaginu, fyrir utan það að vissulega er kennurum sýnd vanvirðing í sinni stöðu í verkfallsaðgerðunum.
Undirritaðar hvetja sveitarfélagið Skagafjörð til að létta á óvissu barna og foreldra þeirra og sýna kennurum sínum stuðning í verki með því að fylgja verklagsreglum KÍ og loka þeim deildum sem sannarlega eiga að vera lokaðar á meðan á verkfalli stendur.
Inga Jóna Sveinsdóttir
Hafdís Einarsdóttir“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.