Nytjamarkaðir á Norðurlandi

Myndin er frá markaði á Akranesi sem Kristbjörg Traustadóttir á og rekur. Er einnig ein af mínum uppáhalds og mæli með að kíkja til hennar. Opið frá 13-17 laugardaga og sunnudaga og er staðsett við Heiðarbraut 5.
Myndin er frá markaði á Akranesi sem Kristbjörg Traustadóttir á og rekur. Er einnig ein af mínum uppáhalds og mæli með að kíkja til hennar. Opið frá 13-17 laugardaga og sunnudaga og er staðsett við Heiðarbraut 5.

Mig hefur lengi langað til að fara á rúntinn og þræða nytjamarkaði á Norðurland því á þessu svæði og reyndar á öllu landinu er heill hellingur af svona búðum og mörkuðum. Eini ókosturinn er opnunartíminn því hann er svo misjafn en síðastliðna helgi var ég fyrir sunnan og kíkti að sjálfsögðu í eina slíka, í Portið, sem er ein af mínum uppáhalds. Ég get nefnilega gleymt mér, ef ég hef tíma, inni í svona verslunum við að skoða alls konar drasl og gersemar og enda yfirleitt á því að kaupa eitthvað sem mig vantaði alls ekki. Sumir tala um að fara inn í þessar verslanir til að „spara“, ætli það sé ekki þegar fólk er að gefa hlutum og fötum nýtt líf með því að mála, laga og breyta, en ég er nú ekki mikið í því, ég kaupi bara. 

Hér kemur listi yfir þá nytjamarkaði sem er á Norðurlandi og ég hvet ykkur til að kíkja við og skoða… það er aldrei að vita nema þú finnir eitthvað sem þig vantar, vantar manni ekki alltaf eitthvað! Byrjum rúntinn á Húsavík og endum á Hvammstanga. Þið megið endilega senda mér á siggag@nyprent.is ef þið vitið um fleiri nytjamarkaði á þessu svæði eða þá ef upplýsingarnar hér fyrir neðan eru ekki réttar. 

Rauða krossbúðin á Húsavík

Er staðsett á Garðarsbraut 44. Opið frá 15:00 – 18:00 á þriðjudögum og fimmtudögum og 13:00 – 15:00.  Í búðinni fást föt og smáhlutir.

Aftur nýtt á Akureyri

Staðsett í Sunnuhlíð 12. Opið frá 12:00 – 18:00 alla virka daga og 12:00 – 16:00 á laugardögum.

Í Aftur nýtt getur fólk keypt föt og fylgihluti og alls konar dót sem er þar til sölu. Þau eru einnig með vefverslun undir afturnytt.is

Fjölsmiðjan á Akureyri

Fjölsmiðjan er staðsett á Furuvöllum 13. Opið frá kl. 10:00 – 16:00 á virkum dögum en til 18 á fimmtudögum.

Í verslun Fjölsmiðjunnar fást húsgögn og húsbúnaður.

Hertex, fata- og nytjamarkaður Hjálpræðishersins á Akureyri

Er staðsett í Hrísalundi 1b. Opið frá kl. 12:00 – 17:00 alla virka daga. Lokað um helgar. Þar er hægt að kaupa fatnað, bækur og alls konar fyrir heimilið.

Lottan á Akureyri

Er staðsett í Kaupangi. Opið alla virka daga frá kl. 12:00 – 18:00 og á laugardögum frá kl. 12:00 – 17:00.

Í Lottunni getur fólk keypt föt og fylgihluti.

Rauða krossbúðin á Akureyri

Er staðsett í Viðjulundi 2. Opið frá kl. 13:00 – 17:00 alla virka daga og frá kl. 12:00 – 16:00 á laugardögum

Á markaðnum fást aðallega föt.

Norðurhjálp á Akureyri

Er staðsett á Dalsbraut 1. Opið alla virka daga frá 13-17 og laugardögum frá 13-16. Á Markaðinum fæst alls konar fyrir heimilið. 

Flóamarkaðurinn í Sigluvík

Sigluvík, Svalbarðsströnd, fyrir utan Akureyri. Opið frá kl. 13:00 – 17:00 alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Ýmislegt til sölu fyrir heimilið.

Litla loppan á Dalvík

Er staðsett á Hólavegi 15. Opið frá kl. 13:00 – 17:00 allar helgar.

Rauða krossbúðin á Dalvík

Er staðsett á Hafnarbraut 7. Opið frá kl. 15:00 – 17:00 á miðvikudögum, fimmtudögum og föstudögum.

Í búðinni fást aðallega föt.

Rauða krossbúðin á Ólafsfirði

Staðsett á Strandgötu 23. Opið frá kl. 13:00 – 17:00 á miðvikudögum. Á markaðnum fást mest föt en eitthvað er til af bókum og öðrum hlutum.

Nytja og handverksmarkaður austan Vatna á Hofsósi

Staðsettur á Túngötu 2. Opið frá kl. 13-18 þriðjudaga til föstudaga og um helgar frá kl. 11-18. Þarna fæst alls konar dót. 

Rauða krossbúðin á Sauðárkróki

Staðsett við Aðalgötu 10. Opið frá kl. 13:00 - 16:00 á þriðjudögum og laugardögum. Þar fær alls konar dót, bæði föt og húsbúnaður.

Rauða krossbúðin á Skagaströnd

Er staðsett við Vallarbraut 4.

Rauða krossbúðin á Blönduósi

Er staðsett á Húnabraut 13. Opið frá kl. 14:00 – 17:00 á þriðjudögum. Á markaðnum fást föt, bækur og smáhlutir.

Nytjamarkaðurinn Hvammstanga

Staðsett í Gamla sláturhúsi VSP. Opið frá kl. 11:00 – 16:00 á laugardögum og frá kl. 13:00 - 16:00. Stundum er opið á virkum dögum en þá er það auglýst á Facebook-síðunni þeirra. Á markaðnum er hægt að fá húsgögn, bækur og alls kyns hluti.

Fréttin er unnin upp úr pistli sem birtist á heimilisvefurinn.is en þar er hægt að finna lista yfir nytjamarkaði á öllu landinu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir