Nú verður dansinn stiginn í Árgarði Í Skagafirð

Ungu harmonikuspilararnir á Jónsmessuhátíð félagsins. Mynd aðsend.
Ungu harmonikuspilararnir á Jónsmessuhátíð félagsins. Mynd aðsend.

Harmonika virkar mjög flókin og gamaldags en er tiltölulega ungt hljóðfæri, varð ekki til fyrr en á þriðja áratug 19. aldar. Hún virkar þannig að þegar maður blæs eða tregur hana sundur og saman fer loft í gegnum tónfjaðrir sem samanstanda af hljómborði, bassa og belg. Ýmsar stærðir og gerðir eru til af harmonikum og eru þær ýmist með hljómbassa eða tónbassa. Hún er fyrst og fremst danshljóðfæri og eru alls konar dansar dansaðir við hljóma hennar. Harmonikan byrjaði sem hljóðfæri yfirstéttarinnar en á síðari hluta 19. aldar tókst mönnum í Þýskalandi að finna aðferð til að fjöldaframleiða hana. Það varð til þess að verðið á henni lækkaði talsvert og þá höfðu fleiri tök á að fjárfesta í einni slíkri. Talið er að hún hafi komið til Íslands seinni hluta 19. aldar og varð strax geysivinsælt hljóðfæri.

Í Skagafirði er að sjálfsögðu starfandi harmonikufélag, Félag harmonikuunnenda í Skagafirði, og eru félagar þess mjög virkir að halda alls konar viðburði. Þann 17. ágúst nk. ætla þau að bjóða upp á Síðsumarsball í Árgarði og ákvað Feykir að senda nokkrar spurningar á formann félagsins, Steinunni Arnljótsdóttur.

Hvenær var félagið stofnað? „Félag harmonikuunnenda í Skagafirði var stofnað af hópi áhugafólks um harmonikuspil þann 21. febrúar 1992 og var þá stofnfundur félagsins. Tilgangur félagsins er að vinna að framgangi harmonikutónlistar og efla kynni félagsmanna og annarra á harmonikutónlist.“

Veistu hversu margir félagar eru í félaginu og eru margir nýir félagar að bætast við? ,,Því miður glataðist félagatalið fyrir all mörgum árum síðan svo ekki er vitað með vissu hversu margir félagar eru. Ekki eru greidd félagsgjöld og því ekki mikið utanumhald um skráða félaga. Því miður hefur ekki verið mikil nýliðun á undanförnum árum en ánægjulegt er að við búum svo vel að hafa í okkar röðum nokkra unga harmonikuleikara sem hafa sannarlega slegið í gegn hjá dansáhugafólki.“

Þarf maður að geta spilað á harmoniku til að vera gjaldgengur í félagið og hvernig gerist maður félagi? „Hver sem er getur gengið í félagið. Félagar eru bæði þeir sem spila á harmonikur og aðrir sem hafa ánægju af að hlusta á harmonikuspil eða dansa við undirspil harmonikunnar. Til að gerast félagi þarf að hafa samband við formann félagsins, sem er ég, Steinunn Arnljótsdóttir.“

Hvaða viðburði haldið þið yfir árið? ,,Fasti punkturinn í starfsemi félagsins er Jónsmessuhátíðin sem haldin er í Árgarði. Þá eru haldin böll á föstudags- og laugardagskvöldi og skemmtun eftir hádegi á laugardegi. Á skemmtuninni á laugardeginum í sumar sungu Vorvindar glaðir, Jósavin Arason flutti gamanmál og nokkrir ungir menn sungu saman og spiluðu síðan nokkur lög saman á harmonikur. Á dansleikjunum spiluðu Norðlensku molarnir auk þess sem gestahljómsveitir frá Akureyri spiluðu hluta af ballinu á laugardagskvöldinu. Haldið var happdrætti á laugardagskvöldinu sem skapaði góða stemningu. Vil ég koma á framfæri kærum þökkum til allra sem gáfu okkur vinninga í happdrættið og vona að það skili þeim viðskiptavinum í framtíðinni. Fólk kemur víða að af landinu, gistir á tjaldsvæðinu eða í nágrenninu og dansar og skemmtir sér alla helgina. Þessi skemmtun er opin fyrir alla og ekkert háð félagsaðild frekar en aðrar skemmtanir sem félagið stendur fyrir. Í sumar komu um 100 gestir á hátíðina sem heppnaðist í alla staði mjög vel. Fólk getur valið að koma á einstaka viðburði eða alla hátíðina. Gaman væri að sjá fleira af heimafólki á þessari samkomu á næstu árum.

Á harmonikudaginn, sem er fyrsta laugardag í maí, spiluðu nokkrir harmonikuleikarar fyrir gesti og gangandi í Skagfirðingabúð.

Í tengslum við aðalfund félagsins hefur verið boðið á opna æfingu hjá hljómsveitinni.

Okkur langar mikið til þess að halda fleiri böll, því það skiptir miklu máli fyrir hljómsveitina að fá reglulega tækifæri til að spila. Það er hvatning til að viðhalda kunnáttunni og þróa sig áfram. Þess vegna ætlum við að vera með Síðsumarsball í Félagsheimilinu Árgarði laugardaginn 17. ágúst frá kl. 21:00-1:00. Þar munu Norðlensku molarnir leika fyrir dansi.

Í september sér félagið um aðalfund sambands íslenskra harmonikuunnenda. Þar kemur saman fólk frá öllum félögum sambandsins. Í tengslum við fundinn verður hátíðarkvöldverður og dansleikur í Árgarði laugardaginn 21. september. Öllum er frjálst að skrá sig í kvöldverðinn og einnig verður selt sérstaklega inn á ballið fyrir þá sem eingöngu vilja mæta á það.

Mjög mikilvægt er fyrir þessa félagsstarfsemi að fólk mæti á viðburði sem haldnir eru því það er forsendan fyrir því að hægt sé að halda starfinu
gangandi.“

Hverjir eru í hljómsveitinni Norðlensku molarnir sem eru að spila á Síðsumarsballinu sem haldið er þann 17. ágúst? ,,Norðlensku molarnir er skemmtilega saman sett hljómsveit. Þar eru gamlir reynsluboltar í bakgrunninum en ungir harmonikuspilarar í forgrunni. Sveinn Árnason spilar á hljómborð, Sigurður Baldursson á trommur og Kjartan Erlendsson á bassa. Síðan eru harmonikuleikararnir Guðmundur Smári Guðmundsson, Ísak Agnarsson og Arnar Freyr Guðmundsson. Þeir spila gömul og góð harmonikulög, vals, ræl, skottís, tango, tjútt og fleira sem gott er að dansa við. Þeir syngja einnig í mörgum lögum texta sem margir kunna, svo hægt er að taka undir og syngja með. Hljómsveitin er svo með æfingaaðstöðu í Árgarði og greiðir ársleiguna með því að spila á einu balli sem húsið sjálft heldur. Var það á kótelettukvöldinu sem var haldið í apríl sl. að þessu sinni.

Við eigum von á því að fólk komi víða að af landinu til að dansa og njóta tónlistarinnar. Við hvetjum heimamenn til að mæta og skemmta sér með þessari frábæru hljómsveit sem hefur hlotið einróma lof þar sem hún hefur komið fram,“ segir Steinunn að lokum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir